Innlent

Vonbrigði að heyra af sóttvarnabrotum dag eftir dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Rögnvaldur Ólafsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir það vonbrigði að heyra af sóttvarnabrotum dag eftir dag og óttast stóra bylgju eftir hátíðirnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til skoðunar hugsanlegt brot á sóttvarnalögum í Landakotskirkju.

Þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru tveir þeirra í sóttkví við greiningu. Fjórir greindust á landamærunum. Um er að ræða bráðabirgðatölur frá almannavörnum og eru birtar með fyrirvara. 

Þá barst lögreglu tilkynning á ellefta tímanum í gærkvöld um hugsanlegt brot í Landakotskirkjum, en þegar lögreglu bar að gerði voru um það bil fimmtíu manns að ganga frá kirkjunni. Fleiri voru innandyra, eða í kringum sjötíu til áttatíu að sögn lögreglu. Grímuskylda hafi ekki verið virt í hvívetna, einn sprittbrúsi innandyra og ómögulegt að tryggja tveggja metra regluna.

Þetta er annar dagurinn í röð sem lögregla leysir upp stórt samkvæmi, en í gær var það í Ásmundasal. Rögnvaldur Ólafsson segist dapur yfir þessum fréttum.

„Alltaf þegar koma svona fréttir, bara frá því að þetta byrjaði þetta stóra verkefni, að maður verður alltaf svolítið vonsvikinn. Það er svona þessi tilfinning sem kemur upp af því að náttúrlega við erum öll að vinna að ákveðnu verkefni og í ákveðnum tilgangi og vita allir hvað er. Og þegar svona fréttir koma verður maður aðallaega bara leiður,“ segir Rögnvaldur.

Hann óttast stóra bylgju eftir jól og biður fólk um að gæta sín. „Það er það sem við erum vön að gera þetta, þetta eru hefðirnar okkar og við erum bara svo rosalega drifin áfram af hefðum og vana að maður svolítið óttast að þetta muni skila okkur þá í fjölgun á smitum,“ segir Rögnvaldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×