Erlent

Hertar aðgerðir taka gildi í Bretlandi

Sylvía Hall skrifar
Fáir voru á ferli við Regent Street í dag eftir að reglurnar tóku gildi. Iðulega væri fjöldi fólks á ferli vegna útsala.
Fáir voru á ferli við Regent Street í dag eftir að reglurnar tóku gildi. Iðulega væri fjöldi fólks á ferli vegna útsala. Getty/Stefan Rousseau

Milljónir Breta búa nú við strangari sóttvarnaaðgerðir eftir að hertar aðgerðir tóku gildi í landinu á miðnætti. Greint var frá 570 dauðsföllum í landinu í gær, en smitum hefur farið fjölgandi undanfarnar vikur.

Svæði landsins hafa verið flokkuð í fjögur þrep eftir því hversu hratt smitum fjölgar og hversu mikið álag er á sjúkrahúsum á svæðinu. Þau sem eru í fjórða þrepi búa við ströngustu takmarkanirnar, en alls búa um átján milljónir Breta þar sem aðgerðir hafa verið hertar hvað mest.

Þannig eru íbúar á þeim svæðum beðnir um að halda sig heima nema þeir hafi ríka ástæðu til þess að vera á ferðinni, til að mynda vegna skóla eða vinnu. Þær verslanir sem ekki teljast nauðsynlegar verða lokaðar og það sama gildir um líkamsræktarstöðvar og veitingastaði.

Þá má aðeins hitta einn af öðru heimili utandyra en fólki er ráðið frá því að ferðast frá því svæði sem það er búsett á, nema það sé vegna skóla eða vinnu.

Stefnt er að því að endurskoða gildandi takmarkanir í Lundúnaborg fyrir 30. desember næstkomandi, en heilbrigðisráðherra landsins sagði ólíklegt að tilslakanir yrðu kynntar í ljósi stöðunnar.

Bólusetning í Bretlandi hófst þann 8. desember síðastliðinn. 

Smitum fjölgaði um 25 prósent milli vikna og er óttast að sú þróun haldi áfram í ljósi þess afbrigðis sem hefur náð að dreifa sér sums staðar á Bretlandseyjum. Afbrigðið sem um ræðir er talið vera allt að sjötíu prósent meira smitandi en önnur, þó ekkert bendi til þess að það sé hættulegra eða að fólk veikist meira vegna þess.


Tengdar fréttir

Nýja afbrigðið greindist í Frakklandi

Nýja afbrigði kórónuveirunnar sem hefur náð að dreifa sér víða á Bretlandseyjum hefur greinst í Frakklandi. Þetta staðfesti franska heilbrigðisráðuneytið, en sá sem greindist er franskur ríkisborgari sem hafði komið frá Lundúnaborg þann 19. desember.

Þurfa í sýna­töku fyrir brott­för til Banda­ríkjanna

Allir farþegar frá Bretlandi þurfa að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku til þess að geta ferðast til Bandaríkjanna. Er þetta gert vegna ótta við nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem hefur fundist í Bretlandi að undanförnu, en það er talið mun meira smitandi en önnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×