Aron skoraði sex mörk í leiknum og fékk einnig skráðar á sig þrjár stoðsendingar. Hann var næstmarkahæstur í liði Börsunga á eftir frönsku skyttunni Dika Mem sem skoraði átta mörk.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr leiknum í gær. Þar má meðal annars sjá fjögur glæsileg mörk frá Aroni og tvær stoðsendingar hans.
[ HIGHLIGHTS]
— Barça Handbol (@FCBhandbol) December 28, 2020
El resum del partidàs que ens dóna el bitllet per a la final de la Champions!! // El resumen del triunfo ante el @psghand que nos da el billete para la final de la @ehfcl 19/20
#EHFFINAL4
#ForçaBarça pic.twitter.com/wz4MWWISwr
Í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld mætir Barcelona Kiel, liðinu sem Aron varð tvívegis Evrópumeistari með á sínum tíma.
Þetta er í þriðja sinn sem Barcelona og Kiel mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og það gerist alltaf með tíu ára millibili. Barcelona varð Evrópumeistari 2000 eftir sigur á Kiel, 54-52 samanlagt. Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og með Aron innanborðs, vann svo Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2010, 36-34.
Aron varð Evrópumeistari með Kiel 2010 og 2012 og var í silfurliði Kiel 2014 og Veszprém 2016. Hann hefur alls níu sinnum tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar, oftar en nokkur annar leikmaður.
Barcelona hefur níu sinnum unnið Meistaradeildina, oftast allra liða. Síðasti sigur Börsunga í keppninni kom 2015 þegar þeir unnu Veszprém í úrslitaleiknum, 28-23. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk fyrir Barcelona í leiknum.
Úrslitaleikur Barcelona og Kiel hefst klukkan 19:30 í kvöld.