Innlent

Jólaáhyggjurnar ekki að raungerast

Kristín Ólafsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir að svo virðist sem áhyggjur sem hann hafði af kórónuveirusmitum um og eftir jólin séu ekki að raungerast. Það sé ekki að sjá að faraldurinn sé í uppsveiflu. Enn séu þó ekki öll kurl komin til grafar.

Níu greindust með kórónuveiruna í gær, þar af voru sex í sóttkví. Sjö greindust með veiruna daginn áður, þar af einungis tveir í sóttkví.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lýst talsverðum áhyggjum af mannamótum og hópamyndun landsmanna í aðdraganda jóla og yfir hátíðarnar. Inntur eftir því hvort hann hafi átt von á að fleiri greindust nú eftir jól, þegar vika er liðin frá Þorláksmessu, segir Þórólfur að hann hafi alveg eins átt von á því.

„Alveg eins. Og ekki síður fyrir jól og þvíumlíkt, að það gæti komið uppsveifla. Eins og staðan er núna erum við ekki að sjá það.“

Áramótin séu nú að bresta á og áhrif mögulegra mannamóta næstu daga eigi eftir að koma í ljós í næstu viku.

„En maður er ánægður með að þetta sé ekki að sveiflast alveg upp. Þannig ég held að þær áhyggjur sem maður hafði fyrir jólin og viku fyrir jól, það er ekki alveg að raungerast núna. Þannig að það er bara mjög gott,“ segir Þórólfur.

Enn séu þó ekki öll kurl komin til grafar.

„Þannig að ég held að við þurfum að láta jól og áramótin líða og síðan kemur svona aðeins ró á mannskapinn eftir það og þá þurfum við að sjá hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×