Erlent

Vill að Ísland banni komur ferðamanna frá löndum utan Schengen

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ursula von der Leyen er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Vísir/Getty

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur lagt til bann við ónauðsynlegum ferðum til aðildarríkja Evrópusambandsins í 30 daga. Bannið yrði sett á með það fyrir augum að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.

Hún sagði í ávarpi á Twitter að nauðsynlegt yrði að fá aðildarríki Schengen samstarfsins sem eru utan ESB - en Ísland er eitt þeirra - til að taka þátt í ferðabanninu. Verði íslensk stjórnvöld við slíkri beiðni yrðu komur ferðamanna frá löndum utan Schengen bannaðar í 30 daga.

„Því minni ferðalög, því meiri stjórn náum við á veirunni. Ég legg til að þjóðarleiðtogar og ríkisstjórnir setji á tímabundin bönn við ónauðsynlegum ferðalögum til Evrópusambandsins,“ sagði von der Leyen.

„Við teljum að draga þurfi úr ónauðsynlegum ferðum til þess að dreifa veirunni ekki frekar, hvort sem það er innan Evrópusambandsins eða utan þess, en einnig til þess að valda heilbrigðiskerfi okkar ekki auknu álagi.“

Þá kæmi til greina að veita undanþágur þeim ríkisborgurum Evrópusambandsins sem væru á heimleið eða á leið til fjölskyldna sinna, heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem vinna sérstaklega að því að sporna við útbreiðslu COVID-19. Fjallað verður um tillöguna á fjarfundi leiðtoga aðildarríkja sambandsins á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×