Innlent

Staðfest smit á Íslandi orðin 220

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í gærkvöldi voru staðfest smit 199.
Í gærkvöldi voru staðfest smit 199. Vísir/vilhelm

Uppfært 14:30: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar kom fram að 224 smit væru staðfest. Í raun voru þau 220. Víðir Reynisson leiðrétti sig á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alls hafa nú 220 kórónuveirusmit verið staðfest á Íslandi. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra í samtali við fréttastofu. Síðasta staðfesta heildartala smita var 199 og hafa því 21 smit bæst við síðan í gærkvöldi. Smitin eru jafnframt nú komin á þriðja hundrað.

Í morgun höfðu alls 22 greinst með kórónuveiruna eftir að hafa farið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum í Kópavogi. Fyrirtækið hafði þá lokið skimun á 2.600 sýnum. Það helst í hendur við fyrri niðurstöður, tæpt eitt prósent skimaðra sýna hafa reynst jákvæð fyrir kórónuveirunni.

Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna fyrir blaðamenn klukkan 14 í dag, líkt og síðustu daga. Auk Víðis munu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir fara yfir stöðu mála með tilliti til kórónuveirunnar.

Á fundinum verður jafnframt sérstaklega fjallað um börn og ungmenni á tímum veirunnar. Steingerður Sigurbjörnsdóttir, barnalæknir og barna-og unglingageðlæknir, mætir og veitir foreldrum góð ráð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×