Innlent

Loka Háteigsskóla í tvær vikur

Kjartan Kjartansson skrifar
Háteigsskóli í morgun.
Háteigsskóli í morgun. Vísir/vilhelm

Stjórnendur Háteigsskóla hafa tekið ákvörðun um að loka skólanum fyrir nemendum í fjórtán daga í samráði við almannavarnir og sóttvarnalæknir. Skólanum var lokað í dag eftir að þrír starfsmenn greindust með Covid-19-sjúkdóminn af völdum nýs afbrigðis kórónuveiru. Hvorki aðrir starfsmenn né nemendur verða þó settir í sóttkví vegna þess.

Í tilkynningu til foreldra kemur fram að ákvörðunin um lokun skólans sé tekin til að freista þessa að hægja á söfnun smita eins mikið og hægt er og koma í veg fyrir að fleiri veikist. Skólastjórnendur árétta þó að skólinn teljist ekki sýktur.

Beina þeir því til nemenda og starfsmanna sem hafa verið settir í sóttkví eða eru veikur fari eftir fyrirmælum almannavarna og landlæknis. Hvorki aðrir nemendur né starfsmenn eru settir í sóttkví í tengslum við lokunina.

„Þær sviptingar sem hafa orðið á skólastarfi síðustu daga eiga sér varla hliðstæðu í manna minnum. Mikilvægt er fyrir okkur öll, foreldra jafnt sem kennara, að taka höndum saman og hlúa að börnunum og skapa þeim traust og öruggt umhverfi. Nú fer í hönd tími þar sem nám og uppeldi fær nýja og víðtækari merkingu þar sem samvera og samtal skiptir meira máli en nokkru sinni áður. Skólinn mun vera í sambandi við foreldra eins fljótt og auðið er varðandi framhald á skólastarfi við þessar óvenjulegu aðstæður,“ segir í pósti sem Arndís Steindórsdóttir, skólastjóri, og Þórður G. Óskarsson, aðstoðarskólastjóri skrifa undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×