Erlent

Trump-liðar reyna að endurskrifa söguna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trmp á blaðamannafundi á mánudagskvöldið.
Donald Trmp á blaðamannafundi á mánudagskvöldið. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og bandamenn hans á Fox og víðar vinna nú hörðum höndum að því að endurskrifa söguna og halda því fram að þeir hafi ávallt tekið Covid-19 heimsfaraldrinum alvarlega. Jafnvel þó það sé alls ekki satt og að fjölmörg myndbönd staðfesti það.

„Þetta er heimsfaraldur. Ég var viss um að þetta yrði heimsfaraldur löngu áður en hann var kallaður það.“ sagði Trump til að mynda við blaðamenn í fyrrakvöld. „Það eina sem þú þurftir að gera var að horfa á önnur ríki. Nei, ég hef ávallt litið þetta alvarlegum augum.“

Hefur hann vísað í þá ákvörðun sína frá 22. janúar að meina fólki frá Kína að koma til Bandaríkjanna því til stuðnings.

Meðal annars í tísti í dag þar sem hann sagði sömuleiðis að fréttir fjölmiðla um að hann hafi ekki tekið faraldurinn alvarlega áður, séu „smánarlegar“ og „rangar“.

Það að Trump hafi ávallt tekið faraldurinn alvarlega er þó þvert á það sem forsetinn sagði ítrekað frá því í janúar og langt fram á þennan mánuð. Meðal annars hefur Trump haldið því fram að faraldurinn sé einhverskonar brella Demókrata sem þeir ætla að nota til að koma honum frá völdum. Eftir á, sagðist hann þó ekki hafa sagt veiruna vera brellu eða gabb, hann hafi verið að tala um gagnrýni Demókrata vegna viðbragða ríkisstjórnar Trump við faraldrinum.

Fregnir hafa borist af því að Trump og starfsmenn ríkisstjórnar hans í Hvíta húsinu hafi gert grín að Alex M. Azar II, heilbrigðisráðherra hans, og sagt hann vera í óráði og hræddan.

Fréttamaðurinn Don Lemon tók saman myndbönd af forsetanum og öðrum ummælum hans undanfarnar vikur, sem sýna að hann tók faraldrinum ekki alvarlega.

Að hluta til hefur viðhorf forsetans breyst vegna aukinna áhyggja af því að krísan gæti ógnað endurkjöri Trump.

Sjá einnig: Nýr tónn í Trump

Blaðamenn The Recount hafa einnig tekið saman ummæli Trump undanfarnar vikur, þar sem hann hefur gert lítið úr faraldrinum.

Bandamenn forsetans á Fox News eru sömuleiðis að reyna að endurskrifa söguna. Eftir að hafa gert lítið úr faraldrinum í margar vikur eru þáttastjórnendur Fox and Friends, til að mynda, nú að gagnrýna alla, og þá sérstaklega ungt fólk, sem reynir að gera lítið úr faraldrinum.

Blaðamenn Washington Post hafa gert myndband sem sýnir vel hvernig umfjöllun Fox hefur breyst á nokkrum dögum.

Fox hefur sömuleiðis veitt öðrum stuðningsmönnum forsetans skjól. Þeirra á meðal er þingmaðurinn Devin Nunes. Nú síðast á sunnudaginn var hann í viðtali á Fox og sagði að heilbrigt fólk ætti að skella sér út á lífið. Fara út að borða og á bari því það væri svo auðvelt vegna þess hve fáir væru á kreiki. Allir gætu því komist inn.

Nunes sagði að hann vildi ekki að ástandið kæmi niður á starfsmönnum veitingastaða og bara.

Í gær var Nunes svo aftur mættur á Fox þar sem hann sagðist hafa verið að tala um bílalúgur ekkert annað og sakaði hann fjölmiðla um að hræða fólk að óþörfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×