Erlent

Trump líkir kórónu­veirufar­aldrinum við stríðs­á­stand

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti virkjaði í dag neyðarlög sem heimila alríkisstjórn að taka yfir og flýta framleiðslu einkafyrirtækja á nauðsynjalækningavörum, líkt og grímum, öndunarvélum og loftræstitækjum
Donald Trump Bandaríkjaforseti virkjaði í dag neyðarlög sem heimila alríkisstjórn að taka yfir og flýta framleiðslu einkafyrirtækja á nauðsynjalækningavörum, líkt og grímum, öndunarvélum og loftræstitækjum AP Photo/Evan Vucci

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, ákváðu í sameiningu í dag að loka landamærum Bandaríkjanna og Kanada að hluta í von um að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Engin „óþarfa“ ferðalög verða leyfð um landamærin.

Lokunin mun ekki hafa áhrif á viðskipti landanna á milli en Bandaríkin eru stærsti viðskiptavinur Kanada, en 75% af útflutningi Kanada fer til Bandaríkjanna.

Listi Bandaríkjanna yfir ríki sem ferðabann þeirra nær til lengist sífellt. Sem stendur mega ríkisborgarar Kína, Íran og rúmlega 25 Evrópuríkja, Íslandi þ.m.t., ekki koma til landsins. Þetta á líka við um fólk sem hefur verið í umræddum löndum síðastliðna 14 daga.

Þá virkjaði Trump neyðarlög í kvöld sem leyfa alríkisstjórninni að taka yfir og flýta framleiðslu einkafyrirtækja á nauðsynjalækningavörum, líkt og grímum, öndunarvélum og loftræstitækjum. Þá sagðist hann einnig vilja auka getu landsins til að greina sýni og að hann vildi senda sjúkrahússskip sjóhersins til New York borgar, sem er á hraðri leið með að verða þungamiðja faraldursins í Bandaríkjunum. Hann sagðist einnig vilja senda slíkt skip til vesturstrandarinnar.

„Við ætlum að leggja þennan ósýnilega óvin,“ sagði Trump sem hefur tekið faraldurinn mun alvarlegar undanfarna daga en hann gerði í upphafi.

Forsetinn gerði ítrekað lítið úr alvarleika veirunnar þegar varað var við því að hún gæti dreifst hratt um Bandaríkin. Í gær lýsti hann því þó yfir að hann hefði vitað frá upphafi að veiran yrði heimsfaraldur og í dag lýsti hann sjálfum sér sem „stríðsforseta.“

„Þetta er stríð. Ég sé þetta, á vissan hátt, sem stríðsforseta. Þetta er mjög erfið aðstaða,“ sagði hann.

Trump hefur einnig virkjað lög til að vísa förufólki frá landamærum að Mexíkó frá. Landamærunum verður þó ekki lokað.


Tengdar fréttir

Ferðamenn til Beijing verða settir í sóttkví

Kínversk yfirvöld hafa ákveðið að allir þeir sem ferðast til Beijing frá útlöndum verði færðir beint í miðlæga sóttkví til eftirlits í fjórtán daga. Víða um heim hefur ferðatakmörkunum og samkomubönnum verið komið á til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×