Erlent

Apollo-geimfarinn Al Worden látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Al Worden í geimbúningi sínum áður en hann flaug til tunglsins í Apollo 15-leiðangrinum árið 1971.
Al Worden í geimbúningi sínum áður en hann flaug til tunglsins í Apollo 15-leiðangrinum árið 1971. AP/NASA

Al Worden, bandaríski geimfarinn sem fór á braut um tunglið í Apollo 15-leiðangrinum árið 1971, lést í dag, 88 ára að aldri. Á heimleiðinni varð Worden fyrsti maðurinn til að fara í geimgöngu utan sporbrautar jarðarinnar.

AP-fréttastofan hefur eftir vini Worden að hann hafi andast í svefni í endurhæfingarmiðstöð í Houston í Texas þar sem hann var til meðferðar eftir sýkingu. Jim Bridenstine, forstjóri bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, lýsir Worden sem bandarískri hetju og fullyrðir að afrek hans í geimnum falli aldrei í gleymskunnar dá.

Worden flaug stjórnhylkinu Endeavour á braut um tunglið á meðan tveir félagar hans, David Scott og Jim Irwin, gengu á tunglinu og prófuðu fyrsta tungljeppa NASA. Scott er á meðal fjögurra manna sem gengu á tunglinu sem eru enn á lífi. Irwin lést árið 1991.

Apollo 15 var eini geimleiðangur Worden. Á leiðinni heim frá tunglinu fór hann út úr geimferjunni í um 322.000 kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Það var í fyrsta skipti sem maður fór í geimgöngu lengra úti í geimnum en á braut um jörðu.

„Nú veit ég hvers vegna ég er hér. Ekki til að líta nánar á tunglið heldur til að horfa aftur heim, til jarðar,“ sagði Worden um leiðangurinn.

Aðeins ellefu af geimförunum 24 sem flugu til tunglsins frá 1968 til 1972 eru nú eftir á lífi. Buzz Aldrin, annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið, er einn þeirra. Hann minntist Worden með því að birta mynd af þeim saman með vísun í tíma þeirra í West Point-herskólanum á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×