Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin fundar í dag en rétta lausnin verður vandfundin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fær einhver að faðma Englandsbikarinn í sumar eins og Sergio Aguero hjá Manchester City hefur gert undanfarin tvö tímabil?
Fær einhver að faðma Englandsbikarinn í sumar eins og Sergio Aguero hjá Manchester City hefur gert undanfarin tvö tímabil? Getty/Victoria Haydn

Enska úrvalsdeildin hittist á fundi í dag þar sem fulltrúar félaganna tuttugu ræða saman um hvernig eigi að klára tímabilið sem er nú í frosti vegna kórónuveirunnar.

Fróðir menn búast ekki við því að endanlega ákvarðanir verðir teknar í dag enda mikil óvissa enn fram undan. Það munu samt sem áður fara fram mikilvægar viðræður á milli félaganna og eflaust mörgum sviðsmyndum velt upp.

Það verða líka margir með augun á þessum fundi og flestir meira en klárir að fá einhverjar handbærar fréttir um hvað tekur nú við.

Öllum leikjum var frestað til 4. apríl en það er búist við því að við það bætist einhverjar fótboltalausar vikur. Breska ríkisstjórnin hefur sett á samkomubann og liðin geta ekki æft saman.

Evrópumótið var fært yfir á næsta sumar sem skapaði svigrúm fyrir evrópsku deildirnar í júnímánuði.

Eitt af því erfiðasta í þessu máli er að félögin eru ekki sammála um rétta lausn og þar kemur vissulega inn í að það væri misgott fyrir þau að enda tímabilið og mörgum þætti best bara að flauta tímabilið af.

Það er þó ekki líkleg niðurstaða í dag eftir að Knattspyrnusamband Evrópu setti mikla pressu á það að deildirnar í Evrópu myndu enda tímabilið.

Það þarf líka að ræða peningalegu hliðina á þessu öllu saman en sjónvarpsstöðvarnar gætu sem þeim sótt sér bætur verði tímabilið flautað af.

Það er líka líklegt að þau lið sem myndu missa af möguleikanum á að komast upp og í alla peningana í ensku úrvalsdeildinni gætu líka heimtað bætur.

Liðin í neðri deildunum eiga líka mörg bágt á þessum erfiðum tímum og pressa á ríku félögunum í Englandi að hjálpa til við að halda þessum félögum á floti á þessum erfiðu tímum.

Það koma líka inn margir hlutir í tengslum við það að klára tímabil í júní eða júlí í staðinn fyrir að klára það í maí.

Margir leikmannasamningar renna út í lok júní og þá opnar nýr félagsskiptagluggi í júníbyrjun. Ef engu er breytt þar þá gæti liðin farið að kaupa sér leikmenn fyrir lokasprettinn eða þá misst leikmenn sem væru orðnir samningslausir.

Það er því mjög margt sem þarf að ræða á fundinum í dag en hvort við fáum einhverjar alvöru niðurstöður verður að koma í ljós.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×