Erlent

Tveir þingmenn smitaðir og aðrir í sóttkví

Samúel Karl Ólason skrifar
Á annan tug þingmanna í Bandaríkjunum hafa farið sjálfviljugir í sóttkví en minnst tveir starfsmenn þingsins hafa einnig greinst með veiruna.
Á annan tug þingmanna í Bandaríkjunum hafa farið sjálfviljugir í sóttkví en minnst tveir starfsmenn þingsins hafa einnig greinst með veiruna. AP/Mario Diaz-Balart

Tveir bandarískir þingmenn opinberuðu í gær að þeir væru með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur. Mario Diaz-Balart, Repúblikani frá Flórída, og Ben McAdams, Demókrati frá Utah, tilkynntu smitin í gærkvöldi, innan við sólarhring eftir að þeir voru í fjölmennum þingsal að greiða atkvæði um aðstoðarpakka vegna faraldursins.

Aðrir þingmenn sem hafa verið í samskiptum við þá tvo eru nú á leið í sóttkví. Þeirra á meðal eru Steve Scalise, sem er þriðji í röðinni sem leiðtogi Repúblikanaflokksins, og Drew Ferguson og Ann Wagner.

Scalise segist hafa verið á löngum fundi með Diaz-Balart í síðustu viku og Washington Post segir hina tvo líklegast hafa verið á sama fundi.

Á annan tug þingmanna í Bandaríkjunum hafa farið sjálfviljugir í sóttkví en minnst tveir starfsmenn þingsins hafa einnig greinst með veiruna.

Donald Trump, forseti, skrifaði í gær undir lög sem samþykkt voru af þingmönnum beggja flokka. Þeim er ætlað að verja hundrað milljörðum dala til að bæta skimun eftir veirunni og í senn tryggja milljónum Bandaríkjamanna launað frí vegna faraldursins.

Ríkisstjórn Trump vill einnig þúsund milljarða neyðarpakka sem á meðal ananrs að verja í að senda peninga til bandarískra fjölskyldna og viðhalda efnahagi ríkisins. Miðað við tillögu Fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna á að senda fyrstu ávísanirnar þann 6. apríl og svo aðrar um miðjan maí. Upphæðin myndi velta á stærð viðkomandi fjölskyldum og tekjum.

Fulltrúadeild þingsins, þar sem Demókratar eru í meirihluta þyrftu þó að samþykkja aðgerðirnar svo þær eiga líklegast eftir að taka einhverjum breytingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×