Innlent

Flestir smitaðir eru ungt fólk

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Sex greindust með Covid 19 sjúkdóminn síðasta sólahring og hafa ekki verið færri frá því í byrjun mars. Flestir nýgreindra eru í aldurshópnum 18 til 29 ára og er hópurinn hvattur til að huga vel að sóttvörnum.

Alls hafa 1760 greinst með Covid 19 sjúkdóminn hér á landi frá því faraldurinn hófst þar af sex síðasta sólahring. 460 eru í einangrun en 1291 hefur náð bata. Þá eru 32 á sjúkrahúsi þar af 3 í gjörgæslu.

„Það er niðursveifla og ekki verið færri nýgreind smit síðan 8. mars þegar faraldurinn var að byrja,“ segir Alma Möller landlæknir. 

Alma segir hins vegar afar mikilvægt að halda áfram að fylgja sóttvarnalögum. Það geti ennþá komið upp hópsýkingar eða tilfellum fjölgað.

„Við minnum á að fyrstu tilslakanir taka ekki gildi fyrr en 4. maí. Við treystum á að fólk sýni áfram aðgátni og skynsemi og auðvitað höldum við þetta út,“ segir Alma. 

Athygli vekur að nú eru flestir þeirra sem smitast á aldrinum 18 til 29 ára. Frá því faraldurinn hófst hafa 364 í þessum aldurshóp fengið Covid 19 og er það fjölmennasti aldurshópurinn af þeim sem hafa smitast.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna.Lögreglan

„Þetta er mjög áhugavert og við erum að beina skilaboð'um til þeirra í dag við erum að skoða þetta betur hvort að það sé eitthvað fleira sammerkt með þessum hóp við þurfum að skoða það betur, segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. 

Þá kom fram á blaðamannafundinum að verið væri að fara yfir hvernig landamæri Íslandi yrðu opnuð fyrir ferðamönnum og von væri á minnisblaði frá Landlækni um málið. 

Víðir segir að mörgu að hyggja þegar kemur að því að fá ferðamenn til landsins.

„Það verður samspil þessara sóttvarnarráðstafana, samspil við hvað aðrar þjóðir gera og hvaða möguleiki við eigum á að taka á móti ferðamönnum vegna ástandsins í heiminum hverjar sem okkar ákvarðanir verða,“ segir Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×