Erlent

Einn af hverjum fimm skikkaður heim í hertum aðgerðum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Times Square í New York í gær, 20. mars. New York-ríki hefur farið verst út úr faraldri kórónuveiru af ríkjum Bandaríkjanna.
Frá Times Square í New York í gær, 20. mars. New York-ríki hefur farið verst út úr faraldri kórónuveiru af ríkjum Bandaríkjanna. Vísir/getty

Fjölmörg ríki Bandaríkjanna hafa nú komið á hálfgerðu útgöngubanni vegna kórónuveirunnar en talið er að hlutfall Bandaríkjamanna sem gert verður að sæta tilmælum um slíkt muni fljótlega nema um einum af hverjum fimm.

Yfirvöld í Kaliforníu hafa þegar gert íbúum að halda sig heima til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og nú gildir hið sama í Connecticut, New Jersey, New York og Illinois. Því er þannig beint til íbúa að fara ekki út nema til þess að versla mat, lyf eða eldsneyti.

Í flestum þessara ríkja hefur fyrirtækjum, sem ekki sinna „nauðsynlegri“ þjónustu, verið gert að loka og starfsmönnum að vinna heima. Hið sama gildir í Pennsylvaníu. Þessar ráðstafanir hafa ýmist tekið gildi eða munu taka gildi næstu daga.

Sjá einnig: Trump-liðar reyna að endurskrifa söguna

Dauðsföll af völdum veirunnar í Bandaríkjunum eru orðin 230 og rúmlega 18 þúsund smit hafa verið staðfest. New York-ríki hefur farið verst út úr faraldrinum til þessa en þar hafa sjö þúsund tilfelli greinst. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti í gær yfir hörmungarástandi í ríkinu, sem tryggir frekara fjármagn til að veita í baráttuna gegn veirunni. Hann sagði þó á blaðamannafundi að landlægt útgöngubann væri ekki í kortunum að svo stöddu og bætti við að Bandaríkin væru að „vinna“ stríðið gegn veirunni. Forsetinn hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir seinagang í aðgerðum sínum vegna faraldursins, sem og fyrir að hafa gert lítið úr alvarleika málsins lengi framan af.

Alls hafa nú yfir 270 þúsund tilfelli af kórónuveirunni greinst á heimsvísu og yfir ellefu þúsund hafa látist. Faraldurinn er nú skæðastur í Evrópu, einkum sunnarlega í álfunni. Yfirvöld í ýmsum Evrópuríkjum hertu aðgerðir sínar gegn veirunni í gær. Þannig gáfu yfirvöld á Spáni það út að hermenn myndu gæta þess að enginn væri á ferli utandyra án þess að hafa til þess góða ástæðu, og þá er Bæjaraland orðið fyrst ríkja í Þýskalandi til að koma á útgöngubanni.

Frétt BBC.


Tengdar fréttir

Trump-liðar reyna að endurskrifa söguna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og bandamenn hans á Fox og víðar vinna nú hörðum höndum að því að endurskrifa söguna og halda því fram að þeir hafi ávallt tekið Covid-19 heimsfaraldrinum alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×