Innlent

64 staðfest smit til viðbótar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sýni tekin á bílastæði fyrir utan Landspítalann.
Sýni tekin á bílastæði fyrir utan Landspítalann. vísir/vilhelm

Staðfest kórónuveirusmit hér á landi eru orðin 473, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Smitin voru 409 í gær og hafa því 64 bæst í hóp smitaðra síðasta sólarhringinn.

Alls er 451 í einangrun og sex liggja inni á sjúkrahúsi. 22 er batnað og 5.448 eru í sóttkví. 753 hafa lokið sóttkví. Þá hafa 9.768 sýni verið tekin alls.

Ljóst er af tölum á Covid.is að töluvert færri sýni voru greind í gær, 20. mars, en dagana á undan. Þetta virðist skýrast af fækkun sýna hjá Íslenskri erfðagreiningu en þar hefur skortur á sýnatökupinnum sett strik í reikninginn.

Ríkisstjórn Íslands hefur boðað til blaðamannafundar í Hörpu klukkan 13 til að kynna frekari aðgerðir til að koma til móts við atvinnu- og efnahagslíf landsins á tímum faraldursins.

Hefðbundinn upplýsingafundur almannavarna fyrir blaðamenn hefst klukkan 14 í Skógarhlíð. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma D. Möller landlæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til kórónuveirunnar hér á landi. Á fundinum verður sérstaklega farið yfir málefni Landspítala og mun Páll Matthíasson forstjóri fara yfir aðgerðir á spítalanum.

Báðum fundum verður streymt hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×