Innlent

Hífðu flugvélina upp af ísilögðu Þingvallavatni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þyrla Norðurflugs lætur flugvélina síga niður við bakka Þingvallavatns.
Þyrla Norðurflugs lætur flugvélina síga niður við bakka Þingvallavatns.

Flugvélin sem hlekktist á við nauðlendingu á ísilögðu Þingvallavatni í fyrrakvöld var hífð upp af ísnum í morgun. Engan sakaði við óhappið en nefhjól vélarinnar brotnaði við lendinguna.

„Það gekk snilldarvel eins og allt sem við tökum okkur fyrir hendur,“ segir Birgir Ómar Hauksson, forstjóri Norðurflugs, í samtali við Vísi um aðgerðir morgunsins. Tveir menn frá Norðurflugi, auk þyrlu fyrirtækisins, hífðu flugvélina upp úr vatninu og komu henni upp á bakkann. Vélin var við Sandey, um tvo og hálfan kílómetra frá landi.

Flugvélin komin upp á bakkann.Aðsend

Birgir segir að til hafi staðið að ná í vélina og koma henni á verkstæði en hann hafði þó ekki upplýsingar um hvort búið væri að ferja hana þangað.

Flugmaður vélarinnar ákvað að lenda á ísnum vegna vélarbilunar. Mennirnir sem voru um borð í vélinni komust svo sjálfir úr henni og af ísnum. Ákveðið var að reyna ekki að koma henni upp á fast land strax vegna þess hversu ótryggur ísinn var.

Myndband af aðgerðunum við Þingvallavatn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×