Innlent

Lækka fjölda þeirra sem mega koma saman veru­lega: Miklar líkur á að sund­laugum og líkams­ræktar­stöðvum verði lokað

Andri Eysteinsson skrifar
Víðir Reynisson greindi frá komandi aðgerðum í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Víðir Reynisson greindi frá komandi aðgerðum í kvöldfréttum Stöðvar 2. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verður lækkaður verulega niður úr hundrað í hertum aðgerðum sem ætlað er að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Sóttvarnarlæknir hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra sem er þar í vinnslu og verður kynnt fyrir ríkisstjórn á morgun. Það verður væntanlega gefið út annað kvöld og tekur gildi frá miðnætti á mánudaginn.

Víðir segist ekki búast við að farið verði jafn langt niður og gert var í Vestmannaeyjum og í Húnaþingi vestra. Í yfirlýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum annars vegar og lögreglunni á Norðurlandi vestra hins vegar var greint frá því að ekki mættu fleiri koma saman en tíu í Vestmannaeyjum og fimm í Húnaþingi vestra en í síðarnefnda sveitarfélaginu skulu allir íbúar sæta úrvinnslusóttkví frá og með klukkan 22:00 í kvöld. Endanleg tala liggur ekki fyrir en Víðir telur að hún verði á bilinu 20-30.

Þá munu hertar aðgerðir einnig fela í sér lokanir á stöðum þar sem þjónusta er „einn á einn“ til að mynda hárgreiðslustöðvar. Víðir segir þá að aðgerðirnar muni hafa áhrif á sundlaugar og líkamsræktarstöðvar landsins, spurður hvort að líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verði lokað vegna aðgerðanna segir Víðir það teljast mjög líklegt.

Þrátt fyrir hertar aðgerðir segist Víðir ekki búast við því að breytingar verði gerðar á skóla- og leikskólahaldi á næstu dögum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×