Bændur eru farnir að loka búum sínum og vilja engar heimsóknir til sín. Fóður og aðföng fyrir skepnur koma á vörubrettum og eru sett fyrir utan gripahúsin þannig að bóndinn hitti ekki þann, sem kemur með vörurnar.
Núpstún í Hrunamannahreppi er dæmi um sveitabæ þar sem allar heimsóknir hafa verið bannaðar og engin af bænum tekur á móti vörum eða fóðri í skepnurnar þegar það kemur, brettið er skilið eftir við fjósið, bóndinn kemur og losar það eftir að maðurinn á flutningabílnum er farin. Allt er þetta gert vegna kórónuveirunnar. Landstólpi er fyrirtæki í uppsveitum Árnessýslu sem þjónustar bændur.
„Við teljum að við getum komist á móts við bændur með því að lágmarka smithættuna og færa þeim þær rekstrarvörur heim á hlað sem þeir þurfa, nokkurskonar snertilaus viðskipti. Við gerum það glöð því við teljum það akkúrat okkar ábyrgð að gera það vegna þess að við erum öll saman í þessu“, segir Elsa Ingjaldsdóttir, gæðastjóri hjá Landstólpa.
Elsa segir að það sé brjálað að gera hjá starfsfólki Landstólpa að finna til vörur fyrir bændur og keyra þær heim að bæjum en starfsfólkið hitti ekki undir neinum kringumstæðum bændur eða þeirra starfsfólk. Hún segir að einhverjir bændur séu farnir að loka búunum sínum.
„Já, það er bara svoleiðis, þeir vilja ekki heimsóknir og þeir vilja alls ekki utanaðkomandi heimsóknir. Þetta er partur af því vegna þess að nauðsynleg aðföng eru alltaf nauðsynleg, þar að segja bændur þurfa þau aðföng hverju sinni til að halda búinu gangandi og samfélaginu líka.“
Innlent