Enski boltinn

Man. City í tveggja ára bann frá Meistaradeild Evrópu

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester City er eitt af bestu liðum Evrópu en hefur brotið reglur um fjárhagslega háttvísi.
Manchester City er eitt af bestu liðum Evrópu en hefur brotið reglur um fjárhagslega háttvísi. vísir/getty

Manchester City fær ekki að spila í Meistaradeild Evrópu næstu tvær leiktíðirnar en UEFA hefur úrskurðað félagið í bann frá keppninni vegna brota á reglum um fjárhagslega háttvísi.

Manchester City þarf einnig að greiða sekt upp á 30 milljónir evra og félagið fær ekkert frekar að tefla fram liði í Evrópudeildinni en í Meistaradeildinni.

Ensku meistararnir voru fundnir sekir um að hafa falsað upplýsingar um tekjur frá styrktaraðilum til að standast þær kröfur sem gerðar eru með reglum UEFA um fjárhagslega háttvísi. Þær reglur voru settar til að eigendur knattspyrnufélaga notuðu ekki eigið fé til að bregðast við hallarekstri. Dómurinn í dag er niðurstaða rannsóknar sem hófst eftir umfjöllun þýska blaðsins Der Spiegel í nóvember 2018, þar sem birt voru ýmis skjöl og tölvupóstar sem þóttu sýna að eigandi City, sjeikinn Mansour bin Zayed Al Nahyan frá Abu Dhabi, hefði sjálfur fjármagnað að mestu treyjusamninginn sem flugfélagið Etihad gerði við knattspyrnufélagið.

Fyrstu viðbrögð frá Manchester City eru á þá leið að niðurstaðan sé vonbrigði en komi ekki á óvart. Henni verði áfrýjað en hægt er að áfrýja dómnum til Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS.

Manchester City er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í ár og mætir þar Real Madrid. Liðið er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 51 stig, tólf stigum á undan Sheffield United sem er í 5. sæti, en England fær fjögur sæti í Meistaradeild Evrópu. Nýliðarnir í Sheffield virðast því sitja í Meistaradeildarsæti eins og staðan er núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×