Viðskipti innlent

Loka Bláa lóninu fram í maí

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Enginn mun baða sig í Bláa lóninu næstu fimm vikurnar rúmar hið minnsta.
Enginn mun baða sig í Bláa lóninu næstu fimm vikurnar rúmar hið minnsta. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn Bláa lónsins hafa tekið þá ákvörðun að loka Bláa lóninu tímabundið vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram á heimasíðu Bláa lónsins.

Frá miðnætti í kvöld nær samkomubannið til hópa stærri en tuttugu manns og í þessu ljósi verður Bláa lóninu lokað frá og með deginum í dag.

Lokunin mun vara til 30. apríl þótt yfirvofandi samkomubann vari aðeins til 12. apríl samkvæmt núverandi plani yfirvalda. Lokunin nær til lónsins, hótelsins, veitingastaða og verslana.

Bláa lónið segir þá sem áttu bókaða tíma og vilja breyta tímanum hafa frelsi til þess, þ.e. að fresta þá komu þar til eftir 30. apríl. Þeir sem vilji hætta við þurfi að styðjast við almennar bókunarreglur.

Þar kemur meðal annars fram að þeir sem hætta við innan sólarhrings frá heimsókn fá enga endurgreiðslu. Þeir sem afbóka innan þriggja daga fá 50 prósent endurgreiðslu en Bláa lónið heldur 10 prósent af aðgangseyri fyrir þá sem afbóka með meira en þriggja daga fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×