Erlent

Útgöngubann sett á í Bretlandi

Eiður Þór Árnason skrifar
„Þið verðið að halda ykkur heima" sagði Boris Johnson í ávarpi sínu nú í kvöld. 
„Þið verðið að halda ykkur heima" sagði Boris Johnson í ávarpi sínu nú í kvöld.  Vísir/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti í ávarpi sínu í kvöld víðtækar takmarkanir sem ætlað er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.

Samkvæmt þessum nýju tilmælum verður Bretum óheimilt að yfirgefa heimili sitt nema nauðsyn beri til. Sömuleiðis verður óheimilt fyrir fleiri en tvo einstaklinga að safnast saman á almannafæri nema um sé að ræða sambýlisfólk. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

Verður landsmönnum nú einungis leyft að fara út fyrir hússins dyr til innkaupa á nauðsynjum, til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða fara í og úr vinnu þegar nauðsyn krefur og um að ræða starf sem ekki er hægt að sinna heima fyrir. Einnig verður fólki leyft að yfirgefa heimilið til þess að hreyfa sig einu sinni á dag og til að veita öðrum nauðsynlega umönun eða aðstoð.

Þar að auki verður öllum verslunum sem selja ekki nauðsynjar lokað ásamt bókasöfnum, leikvöllum og trúarbyggingum. Þá verður bannað að halda hinar ýmsu athafnir á borð við brúðkaup og skírnir, að jarðarförum undanskildum. 

Fram kom í ávarpi forsætisráðherrans að lögreglunni væri heimilt að beita sektum ef brotið yrði á tilmælunum sem taka gildi strax í kvöld. Þau munu gilda í minnst þrjár vikur.

Alls hafa 335 lát­ist í landinu af völd­um kórónuveirunn­ar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×