Þrír meðlimir framkvæmdastjórnar SÁÁ hafa tilkynnt úrsögn sína í kjölfar uppsagnar Valgerðar Á. Rúnarsdóttur yfirlæknis á Vogi. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið en níu eru í framkvæmdastjórninni.
Valgerður sagði upp störfum vegna djúpstæðs ágreining við formanninn en átta starfsmönnum var sagt upp í gær og starfshlutfall annarra starfsmanna var lækkað. Það var gert án samráðs við hana eða aðra yfirmenn og sagði hún í samtali við RÚV að hún gæti ekki sætt sig við að teknar væru ákvarðanir um að segja upp lykilstarfsfólki án samráðs.
Fjölmargir lýstu yfir óánægju sinni með starfslok Valgerðar, þar á meðal fyrrum skjólstæðingar sem og læknar. Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítala sagði starfslokin mikið högg fyrir bæði SÁÁ og sjúklinga á Vogi.
Sjá einnig: Uppnám og óánægja allsráðandi vegna starfsloka Valgerðar á Vogi
„Það er vandfundin heilsteyptari manneskja með jafn sterka réttlætiskennd. Það hlýtur að vera hægt að finna betri lausn en þessa á vandamálum SÁÁ - enda Valgerður með reynslu og þekkingu sem fáir búa yfir hérlendis,“ skrifaði Tómas á Facebook-síðu sína.
Þá skoraði Rúnar Freyr Gíslason á félagsmenn að gera allt sem þeir gætu til að snúa við þessari ákvörðun, en hann þekkir vel til SÁÁ. Hann er fyrrverandi samskiptastjóri samtakanna og fór jafnframt í áfengismeðferð á árum áður, líkt og hann hefur rætt opinberlega í viðtölum.
„Hún er SÁÁ og hún er Vogur. hún bara má ekki hætta. Það vita allir sem hafa komið nálægt starfsemi félagsins. Ég skora á félagsmenn að gera allt sem þeir geta til að snúa við þessari ákvörðun.“