Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur fordæmt nýjustu eldflaugatilraunir Norður-Kóreu. Her Norður-Kóreu skaut um helgina nýrri tegund eldflauga á haf út úr nýrri gerð skotpalla sem tilheyrir vopnafjölskyldu sem forsvarsmenn einræðisríkisins kalla „risa stórir eldflaugaskotpallar“. Tveimur eldflaugum var skotið á haf út aðfaranótt sunnudagsins og var það fjórða eldflaugatilraun Norður-Kóreu í þessum mánuði.
Í Suður-Kóreu var gefin út yfirlýsing þar sem eldflaugaskotin og ógnunartilburðir Norður-Kóreu voru fordæmd. Sérstaklega með hliðsjón af því að heimsfaraldur stendur nú yfir.
Ríkisstjórn Kim Jong Un hefur haldið því fram að ekkert smit hafi komið upp í Norður-Kóreu, en sérfræðingar efast verulega um það. Kóreumenn opinberuðu í síðustu viku að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði sent bréf til Kim og boðið honum aðstoð gegn nýju kórónuveirunni. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir þó að því boði hafi ekki verið svarað.
Viðræður Bandaríkjanna og Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana einræðisríkisins hafa í raun ekki verið virkar um langt skeið eða síðan upp úr slitnaði á fundi Trump og Kim í Hanoi í fyrra. Það var annar fundur þeirra.
Fyrsti fundur þeirra var í Singapúr árið 2018. Þá skrifuðu þeir undir óljóst samkomulag varðandi kjarnorkuvopn sem Trump sagði þýða að Norður-Kórea myndi á endanum láta vopn sína af hendi. Norður-Kóreumenn sögðu það tákna að Bandaríkin ættu að flytja öll kjarnorkuvopn sín af svæðinu.
Kim sagði á fundi flokks síns í lok síðasta árs að hann myndi aldrei láta vopn sína af hendi á meðan Bandaríkin héldu „óvinveittri“ stefnu þeirra gagnvart Norður-Kóreu til streitu. Kim vill losna við allar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu, áður en frekari viðræður eiga sér stað en það þvertaka Bandaríkin fyrir og segja þörf á aðgerðum frá Kim.