Innlent

Landlækni tilkynnt um andlát konu skömmu eftir útskrift af bráðadeild

Kjartan Kjartansson skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna 31. mars 2020.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna 31. mars 2020. Lögreglan

Alvarlegt atvik þar sem 42 ára gömul kona lést innan við sólarhring eftir að hún var útskrifuð af bráðadeild Landspítalans hefur verið tilkynnt til embættis landlæknis, að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans. Landlæknir segir að alvarleg atvik tengist oft álagi en ekki í öllum tilfellum.

Ríkisútvarpið sagði frá því í dag að 42 ára gömul kona hefði látist innan við sólarhring eftir að hún var útskrifuð af bráðamóttöku Landspítalans í síðustu viku. Til skoðunar sé hvort að álag vegna kórónuveirufaraldursins hafi átt þátt í því.

Páll sagðist ekki geta tjáð sig um mál sem væri í skoðun þegar hann var spurður út í lát konunnar á upplýsingafundi almannavarna vegna faraldursins í dag. Það teldist alvarlegt atvik og hefði verið tilkynnt landlækni.

Alma Möller, landlæknir, sagði alvarleg atvik koma upp og að oft tengdust þau álagi á heilbrigðisstofnunum en ekki alltaf. Það yrði ekki ljóst fyrr en farið yrði ofan í kjölinn á atvikinu.

Samkvæmt RÚV var konan flutt á bráðamóttökuna með sjúkrabíl á fimmtudag en hún var þá talin með sýkingu í blóði. Hún hafi verið orðin máttvana og átt erfitt með gang og að hreyfa hendur. Hún hafi verið send heim í hjólastól nokkrum klukkustundum eftir komuna á bráðamóttökuna. Hún hafi andast á heimili sínu morguninn eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×