Lífið

Omnom fagnar Eurovision með því að gefa súkkulaðipopp

Guðný Hrönn skrifar
Omnom kynnir til leiks þetta dásamlega fallega poppkorn.
Omnom kynnir til leiks þetta dásamlega fallega poppkorn.
Súkkulaðiframleiðandinn Omnom Chocolate er í óðaönn að búa til súkkulaðipopp fyrir sumarið. „Poppið mun innihalda 100% stuðning við Hinsegin daga í Reykjavík og mun koma í fimm litríkum glamúrbragðtegundum sem eru lakkrís + hindber, bláber, mangó + ástaraldin, jarðarber og matcha-te,“ segir Hildur Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Omnom Chocolate.

Hildur er afar spennt fyrir þessari nýjung og er viss um að hún muni slá í gegn hjá slækerum landsins. ,,Þetta er „confetti“ sem hægt er að borða! Ég er sko hrikalega spennt fyrir þessu poppi fyrir Eurovision-partíið. Loksins get ég borðað skrautið og þarf ekki að þrífa allt „confettið“ upp og henda því eftir gleðina. Þetta er því umhverfisvænt skraut,“ segir Hildur sem kallar sjálfa sig „poppálf“.

En Omnom ætlar að taka smá forskot á sæluna í tilefni Eurovision. „Til að hefja leika ætlum við að sjálfsögðu að gleðjast og horfa á Svölu keppa á þriðjudaginn. Við bjóðum alla velkomna þann dag í verslun okkar til að sækja sér frítt box af súkkulaðipoppi til að gæða sér á yfir Eurovision-herlegheitunum!“

Á þriðjudaginn ættu því allir sælkerar að leggja leið sína út á Granda. „Fólk er velkomið í verslun Omnom, Hólmaslóð 4, frá kl. 11.00 til 18.00 að sækja sér poppbox á meðan birgðir endast,“ segir Hildur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.