Innlent

Íbúi í Árnesi: "Ég hélt að rúta hefði ekið inn í húsið mitt“

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Árnesi í Gnúpverjahreppi.
Úr Árnesi í Gnúpverjahreppi.
 „Ég hélt að rúta hefði ekið inn í húsið mitt. Það hristist svo svakalega,“ segir Bergleif Gannt Joensen í Árnesi um skjálftann sem varð rúmum tveimur kílómetrum suðsuðaustur af Árnesi klukkan 12:08 í dag. „Það varð þvílíkur skjálfti hér í um fimm sekúndur.“

Bergleif segist hafa verið inni í stofu að horfa á fótbolta þegar skjálftinn varð. „Manchester City á móti Crystal Palace. Ég var að tala við vin minn í Grímsnesi og hann vissi ekki af þessu. Hann hafði ekkert tekið eftir skjálftanum. Hundurinn minn lá líka bara á gólfinu og tók ekki eftir neinu. Hann hreyfði sig ekki,“ segir Bergleif og bætir við að ekkert hafi sem betur fer farið úr hillum í þetta skiptið.

Bergleif segir íbúa á þessu svæði vera vana skjálftum. „Þessi var þó í minni og styttri kantinum. Hann var verstur í minni tíð árið 2000, 17. júní. Hann var rosalegur. Þá var ég með félagsheimili, var með 17. júní kaffi, tertur og svoleiðis. Það fór úr öllum hillum sem sneru suður-norður, allt niður á gólf, en ekki það sem sneri austur-vestur. Það varð allt eftir. Það var svo skrítið að það fór allt kaffi upp úr kaffibollunum, en bollarnir stóðu eftir. Það var skrítin sjón,“ segir Bergleif þegar hann rifjar upp skjálftann árið 2000.

Um mínútu eftir skjálftann í dag mældist annar af stærðinni 3,3. „Skjálftarnir urðu á þekktu sprungusvæði. Líklega er þetta sama sprunga og hrökk árið 1630. Skjálftarnir fundust víða á Suðurlandi,“ segir á vef Veðurstofunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×