Innlent

Sinubruni á Reyðarfirði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Reyðarfirði í dag.
Frá vettvangi á Reyðarfirði í dag. Ágúst Ívar

Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út laust fyrir klukkan hálffjögur í dag vegna sinubruna sem hafði kviknað skammt fyrir ofan íbúðabyggð á Reyðarfirði.

Þorbergur Níels Hauksson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn og var búið að ráða að niðurlögum hans þegar Vísir náði tali af Þorbergi fyrir um korteri síðan.

Hann segir að eldurinn hafi logað á dálitlu svæði en þeir tólf slökkviliðsmenn sem fóru í útkallið hafi fljótt náð góðum tökum á eldinum og náð að berja hann niður og bleyta í.

Þorbergur segir íbúðabyggðina fyrir neðan ekki hafa verið í hættu. Hins vegar sé mikill skógur fyrir ofan svæðið þar sem bruninn varð og segir hann að slökkviliðið hafi ekki viljað missa eldinn í skóginn. Það hafi tekist að koma í veg fyrir að hann breiddi úr sér þangað.

Talið er að bruninn hafi orðið vegna þess að krakkar voru að fikta með eld á svæðinu en Þorbergur segir að síðan hafi verið mikil hjálp í því að krakkar hafi komið með fötur fullar af vatni til að aðstoða slökkviliðið við að slökkva eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×