Björgunarsveitir voru kallaðar út um fimmleytið í dag vegna manns sem datt í gil rétt vestan við Geysi. Um er að ræða björgunarsveitir frá Laugarvatni, Flúðum og Selfossi. Talið er að maðurinn sé fótbrotinn og þarf að setja upp fjallabjörgunarkerfi til að hífa manninn upp úr gilinu, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg.
Gilið er bratt og er afar hált á staðnum. Þar að auki þarf að bera viðkomandi einhvern spotta að sjúkrabíl.
Um svipað leyti barst einnig útkall til björgunarsveitarinnar Hafliði á Þórshöfn. Það var vegna tveggja vélsleðamanna sem eru í vandræðum á Hvammsheiði. Báðir vélsleðar þeirra virðast hafa bilað og eru mennirnir því strandaglóðar fjarri byggð.
Þeir verða sóttir og færðir til byggða.