Innlent

Hungursneyð í Evrópu á 9. öld rakin til Kötlugoss

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Drumbabót. Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull í baksýn. Hamfarahlaup frá Kötlu niður Markarfljótsaura eyddi skóginum. Sama eldgos er nú talið hafa valdið hungursneyð í Evrópu.
Frá Drumbabót. Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull í baksýn. Hamfarahlaup frá Kötlu niður Markarfljótsaura eyddi skóginum. Sama eldgos er nú talið hafa valdið hungursneyð í Evrópu. Stöð 2/Einar Árnason.
Eldgos í Kötlu fyrir tólfhundruð árum er nú talið geta skýrt hungursneyð sem varð í Evrópu á árunum eftir 821, - hálfri öld áður en Ísland byggðist. Þá varð svo kalt að stórfljót frusu, þar á meðal Rín, Signa og Dóná. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2. 

Við sögðum í síðasta mánuði frá alþjóðlegri vísindarannsókn þar sem tókst að aldursgreina trjáleifarnar í Drumbabót undan Fljótshlíð með afar nákvæmum hætti. Drumbarnir sem standa upp úr sandinum eru leifar af stórvöxnum birkiskógi sem eyddist í hamfarahlaupi vegna Kötlugoss. 

Drumbabót er á Þveráreyrum undan Tumastöðum í Fljótshlíð. Fjallið Þríhyrningur í baksýn.Stöð 2/Einar Árnason.
Þessi nákvæma tímasetning eldgossins hefur leitt til þess að vísindamennirnir, undir forystu Ulf Büntgen í Cambridge-háskóla, tengja það nú við kuldaskeið og hungursneyð sem varð í Evrópu á sama tíma. Í grein í The Economist kemur fram að Kötlugosið er talið hafa valdið því að hitastig í Evrópu lækkaði verulega á árunum eftir 821. 

Í samtímaannálum kemur fram að árnar Rín, Signa og Dóná frusu og mátti komast yfir þær á hestum á ís. Lýst er snjóþyngslum með hræðilegum hagléljum. Uppskerubresti fylgdu plágur og hungursneyð um nokkurra ára skeið og svo miklar voru hörmungarnar að munkur í Norður-Frakklandi, Radbertus, ritaði á þessum tíma að sjálfur Guð hlyti að vera reiður.

Frá Kötlugosinu árið 1918. Það er síðasta eldgos sem vitað er um með vissu í eldstöðinni.
En nú eru nútímavísindi búin að finna annan sökudólg; sjálfa Kötlu, og afleiðingar eldgossins má enn sjá í Drumbabót. 

Þetta Kötlugos er þá ekki eina íslenska eldgosið sem kennt er um evrópskar hörmungar því Skaftáreldar árið 1783 hafa verið spyrtir við matarskort í Evrópu árin á eftir og frönsku byltinguna. 

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, varaði umheiminn við Kötlu árið 2010 í frægu viðtali á BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×