Innlent

Fjölgað um sex þúsund á 30 árum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bæjarstjórinn tók á móti forsetahjónunum í afmælisveislu bæjarins í dag.
Bæjarstjórinn tók á móti forsetahjónunum í afmælisveislu bæjarins í dag. vísir/sigurjón
Þann 9. ágúst 1987 breyttist Mosfellssveit í Mosfellsbæ þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Þá bjuggu tæplega 3900 íbúar í Mosfellshreppi en í dag er Mosfellsbær sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Og nú í sumar flutti tíuþúsundasti íbúinn í bæinn.

Og þeim mun fjölga um þúsundir á næstu árum enda mikil uppbygging í gangi í bænum. Helgafellshverfið er nú að rísa hratt og þegar það verður fullbyggt munu þar búa um þrjú þúsund íbúar.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, segir víða verið að byggja.

„Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag og getur fullbyggður orðið á stærð við Kópavog. En það gerist á mörgum árum og áratugum.“

Fjölgun íbúa hefur fylgt uppbygging innviða, svo sem grunnskóla og íþróttamannvirkja. En þrátt fyrir kaupstaðarréttindin einkennist bærinn af því að vera sveit í borg - og þannig vill fólk hafa það áfram.

„Við erum gamalt og gróið sveitarfélag. Við viljum vera sveit. Varðveita náttúruna, árnar og fellin. Við þurfum að vanda okkur til að bærinn byggist upp í sátt við umhverfið og náttúruna og það ætlum við að gera.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og kona hans, Eliza Reed, komu í opinbera heimsókn í Mosfellsbæ í dag til að fagna afmælinu með bæjarbúum. Þau fengu heldur betur að upplifa sveitina í borginni í gróðrarstöðinni Dalsgarði - þar sem ungir íbúar Mosfellsbæjar tóku fagnandi á móti þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×