Jamaíkamaðurinn Usain Bolt komst í nótt einu skrefi nær því að vinna 200 metra hlaup karla á þriðju Ólympíuleikunum í röð þegar hann vann undanúrslitin í 200 metra hlaupinu á Ólympíuleikvanginum í Ríó.
Usain Bolt kom fyrstur í mark á 19,78 sekúndum en hann fékk keppni frá Kanadamanninum Andre De Grasse í sínum riðli í undanúrslitunum. Andre De Grasse kom í mark á 19,80 sekúndum eða nýju kanadísku meti.
Andre De Grasse keyrði á Bolt í lokin þegar Jamaíkamaðurinn gaf aðeins eftir með sætið í úrslitunum nánast tryggt. Þeir brostu til hvors annars á lokasprettinum en Bolt gaf aftur í og vann riðilinn.
Usain Bolt var ekkert alltof ánægður með tilraun De Grasse til að vinna sig enda báðir með sætið í úrslitahlaupinu í öruggum höndum.
Það má því búast við spennandi úrslitahlaupi á morgun þar sem þeir Usain Bolt og Andre De Grasse verða væntanlega í aðalhlutverki. Smá sálfræðistríð í undanúrslitunum gerir ekkert nema gott fyrir úrslitahlaupið sjálft.
Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin varð hinsvegar að sætta sig við að komast ekki í úrslitahlaupið á morgun því hann varð í níunda sæti. Gatlin var aðeins þremur sekúndubrotum frá sæti í úrslitunum.
