Elaine Thompson frá Jamaíka fylgdi á eftir sigri sínum í 100 metra hlaupi kvenna með því að vinna einnig 200 metra hlaupið á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.
Elaine Thompson varð þar með fyrsta konan í 28 ár sem nær því að vinna 100 og 200 metra hlaupið á sömu Ólympíuleikum eða síðan að hin bandaríska Florence Griffith Joyner náði því í Seoul 1988.
Elaine Thompson kom fyrst í mark í úrslitahlaupinu en það tók hana samt nokkurn tíma að átta sig á því að hún hefði unnið sitt annað gull á leikunum.
Elaine Thompson hljóp á 21,78 sekúndum og var tíu hundraðshlutum á undan hinni hollensku Dafne Schippers sem varð önnur. Tori Bowie frá Bandaríkjunum hljóp á 22,15 sekúndum og krækti í bronsið.
Dafne Schippers braut upp einokun Bandaríkjanna og Jamaíka á verðlaunum í þessari grein en öll verðlaun í 200 metra hlaupi kvenna á síðustu tveimur leikum höfðu farið til annaðhvort Bandaríkjanna eða Jamaíka.
Elaine Thompson er 24 ára gömul og hennar besti árangur á stórmóti fyrir þessa leika í Ríó voru silfurverðlaun í 200 metra hlaupi á HM í Peking 2015.
Sport