Skoðun

Segðu satt, Bjarni

Kolbeinn Óttars­son Proppé skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ánægður með sjálfan sig. Þetta mátti glöggt heyra á honum þegar hann ræddi um stöðu þjóðmála þegar Alþingi kom saman að nýju á mánudag. Þar fór Bjarni fögrum orðum um eigin verk og barði sér nokkuð duglega á brjóst. Þegar maður hrósar sjálfum sér, er hins vegar ágætt að byggja sjálfshólið á staðreyndum, ekki firru.

Því hvað er annað hægt að segja um þetta frá hæstvirtum fjármála- og efnahagsráðherra:

„Á þessum vanda höfum við verið að taka með þeim hætti að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálunum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013.“

Bittenú. Heldur Bjarni Benediktsson að vinstri stjórnin hafi tekið við blómlegu búi, en skilað af sér uppsöfnuðum halla? Það má teljast mikil vanþekking ef svo er og spurning hvort sá sem slíkt telur sé hæfur til að fara með fjármál ríkisins.

Vinstri stjórnin tók við ríkissjóði í rúst, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í ríkisstjórn frá árinu 1991, eða í 18 ár. Sjálfur var Bjarni Benediktsson formaður fjárlaganefndar 2003-2007 og formaður efnahagsnefndar 2007-2009, þegar hrunið skall á.

Árið 2009, þegar vinstri stjórnin tók við, var fjárlagahalli ríkisins um 140 milljarðar króna. Það var búið sem Vinstri græn og Samfylking þurftu að stýra. Þegar vinstri stjórnin fór frá völdum hafði henni tekist að ná jöfnuði í fjármálum ríkisins. Þegar tillit er tekið til afborgana, vaxtagreiðslna og ýmislegs fleira, má leiða líkum að því að viðsnúningurinn hafi verið allt að 200 milljarðar króna. Og hvernig hefur frjálshyggjumaðurinn Bjarni Benediktsson, með alla sína reynslu úr atvinnulífinu, farið með það bú sem hann tók við?

Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir að hafa fengið í gjöf frá vinstri stjórninni um 200 milljarða viðsnúning á rekstri ríkisins, hefur Bjarni Benediktsson ekkert gert nema að skila svipuðum afgangi ár eftir ár. Og það er í blússandi góðæri. Ástæðan er sú að stjórnin hefur afsalað sér tekjum í formi álaga á þá sem best hafa það í samfélaginu.

Það er fallegt að Bjarni sé svona ánægður með sjálfan sig, en sjálfsánægjan má ekki gefa mönnum þá glýju í augun að þeir verði blindir á staðreyndir.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×