Innlent

Ásta Guðrún hætt sem þingflokksformaður Pírata vegna ágreinings

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásta Guðrún Helgadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. Vísir/Ernir
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður Pírata.

Í færslu á Facebook-síðu Ástu segir að hún og meirihluti þingflokksins hafi ólíka sýn á hvert þingflokkurinn ætti að stefna.

„Í ljósi ágreinings milli mín og meirihluta þingflokks Pírata varðandi innra skipulag þingflokksins hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður Pírata,“ skrifar Ásta Guðrún.

Í samtali við Vísi segir Ásta Guðrún að ágreiningurinn hafi falist í því hvernig innra starfi þingflokksins væri háttað.

„Við erum búin að vera svolítið leitandi í því hvernig við viljum hátta okkar starfi saman. Þar sem það var ekki komin lausn í það ákvað ég að það væri best fyrir mig að stíga til hliðar og leyfa öðrum að taka við keflinu,“ segir Ásta Guðrún.

Ásta Guðrún tók við sem þingflokksformaður Pírata í janúar síðastliðnum og er Einar Brynjólfsson núverandi þingflokksformaður. Ásta Guðrún segist hlakka til að verða óbreyttur þingmaður á ný.

Eftir þingkosningar í haust eru tíu þingmenn í þingflokki Pírata. Segir Ásta Guðrún að það sé þingflokksins að ákveða hver taki við þingflokksformennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×