Viðskipti innlent

Björgólfur Thor dregur ekkert undan í harðorðu svari sínu til Róberts Wessman

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér eru þeir fyrrum viðskiptafélagarnir á aðalfundi Actavis árið 2007.
Hér eru þeir fyrrum viðskiptafélagarnir á aðalfundi Actavis árið 2007. Fréttablaðið/anton brink
Ekkert lát er á opinberum deilum fyrrum viðskiptafélaganna Róberts Wessman og Björgólfs Thors Björgólfssonar en þeir tengdust um aldamótin í gegnum lyfjafyrirtækið Actavis. Hafa þeir deilt opinberlega síðan frá því fyrir hrun. Róbert Wessman, fyrrum forstjóri Actavis en núverandi forstjóri Alvogen, bar Björgólf þungum sökum í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í fyrradag. Í Fréttablaðinu í dag svarar Björgólfur í sömu mynt.

Sérstaklega þykir Björgólfi merkilegt að Róbert hafi viðurkennt í fyrsta sinn opinberlega að hann sé stór hluthafi í Alvogen með tugmilljarða hlut.

„Hvers vegna hefur starfsmaður hans Árni Harðarson ávallt verið sagður eigandi þess hlutar? Ætli það tengist samningum Róberts við íslensku bankana um skuldir hans og tengdra félaga, sem samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis námu um 30 millljörðum króna, og voru afskrifaðar að mestu? Spyr sá sem ekki veit.“

„Róbert Wessman gaf lesendum Markaðarins innsýn í hugarheim sinn í gær. Að horfa á þá mynd var eins og að svipast um í speglasal, allt bjagað og snúið,“ skrifar Björgólfur.  

Segir Wessman hafa verið rekinn úr forstjórastóli

Róbert sagði meðal annars í Markaðnum að Björgólfur Thor hafi plottað yfirtöku á lyfjafyrirtækinu Delta án þess að sá fyrrnefndi sem þá var forstjóri fengi rönd við reist. Björgólfur segir þetta ekki satt, málið hafi einfaldlega verið þannig vaxið að Wessman var starfsmaður sem hafði ekkert um það að segja hvort eigendur fyrirtækisins seldu hlut sinn eða ekki. Delta sameinaðist síðar Pharmaco og fékk hið sameinaða félag nafnið Actavis. 

Róbert hætti sem forstjóri Actavis árið 2008 og segir það hafa verið vegna þess að hann vildi ekki starfa með Björgólfi lengur. 

„Þá er í rauninni Björgólfur orðinn einn hluthafi. Þá var návígið orðið allt annað. Ég bara kunni ekki við að vinna með honum eða hans fólki. Við ræddum það bara mjög fljótt eftir að félagið er tekið af markaði að ég hefði ekki áhuga á að starfa fyrir hann og það voru ýmsar ástæður fyrir því.“ 

Björgólfur segir Róbert hins vegar reyna að endurskrifa söguna. Hann hafi í raun verið rekinn úr forstjórastóli eftir að hafa gert Actavis ógjaldfært með óraunhæfum áætlunum og kaupum á gölluðu fyrirtæki erlendis. 

Björgólfur hafnar afbrýðisemi

Róbert fjárfesti í Glitni í árslok 2007. Hann nefndi að Björgólfur hefði alltaf verið ósáttur við þessa fjárfestingu. „Hann hafði alltaf haft augastað á að taka yfir Glitni og hugnaðist það mjög illa.“ 

Björgólfur var ósáttur en neitar að það hafi verið vegna þess að hann sjálfur hafi viljað kaupa hlut. 

„Dylgjur Róberts um að ég hafi fyllst einhverri afbrýðisemi vegna kaupa hans í Glitni eru enn ein bjögunin. Það sem mér féll illa voru sífellt vaxandi umsvif forstjóra Actavis á öðrum og óskyldum vettvangi sem samræmdust ekki forstjóraskyldum hans. Róbert rak 10 manna fjárfestingarfélag sitt, Salt Investments, á sama tíma og hann átti að einbeita sér að fullu að rekstri stórfyrirtækis. Við yfirtökuna á Actavis fékk forstjórinn frá mér hlut að verðmæti yfir 100 milljónir evra í félaginu og þurfti aðeins að greiða brot fyrir. Hann veðsetti þennan eignarhlut, þrátt fyrir að honum væri það óheimilt, og hóf að kaupa eignir um allar trissur,“ segir Björgólfur.


Tengdar fréttir

Fastur í speglasal

Róbert Wessman gaf lesendum Markaðarins innsýn í hugarheim sinn í gær. Að horfa á þá mynd var eins og að svipast um í speglasal, allt bjagað og snúið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×