Erlent

Hrafnhildur heyrði sendiferðabílinn aka á fólkið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hrafnhildur faldi sig í lítilli fatabúð ásamt sex öðrum.
Hrafnhildur faldi sig í lítilli fatabúð ásamt sex öðrum. Vísir/samsett mynd/afp
Hrafnhildur Jóna Hjartardóttir og vinkona hennar voru á leið á markaðinn La Boqueria og voru rétt við Römbluna þegar þær heyra skyndilega mikil læti. Hrafnhildur er tuttugu og tveggja ára og er í starfsnámi í Barselóna. Hún hefur dvalið í borginni í rúma viku þegar þessir skelfilegu atburðir eiga sér stað.

Hún segist hafa heyrt fólk reka upp öskur og þá hafi hún, full örvæntingar, tekið á rás. 

„Ég hélt að ég væri að fara að deyja,“ segir Hrafnhildur sem vissi ekki frá hverju hljóðið barst en vissi að það væri eitthvað slæmt og jafnframt að það væri nálægt sér. Hún týndi veskinu sínu í öllum hamaganginum.

Í öllum látunum varð Hrafnhildur viðskila við vinkonu sína og leitaði hún skjóls í lítilli fatabúð þar sem hún faldi sig ásamt sex öðrum. Eigandi búðarinnar lét öryggishliðið síga niður til að verja fólkið. Hrafnhildur beið í um tíu mínútur í versluninni, eða þar til hún taldi öruggt að halda aftur út. Vegfarandi lét þau vita hvað hefði gerst og hraðaði hún sér því aftur á hostelið sem hún dvelur á um þessar mundir.

„Ég náði engu sambandi við vinkonu mína sem ég var með. Ég hélt hún væri kannski dáin en hún hafði síðan samband tíu mínútum seinna,“ segir Hrafnhildur sem tekur fram að vinkona hennar hafi leitað skjóls að heimili Spánverja.

Hrafnhildur segir að mælst sé til þess að fólk haldi sig innandyra að svo stöddu og ætla vinkonurnar að vera áfram inni á hostelinu. Hún segir það hafa hjálpað sér svakalega að heyra í fjölskyldu og vinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×