Fótbolti

Man. United kaupir stjörnur á meðan Klopp kaupir leikmenn inn í liðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp brosir út í eitt.
Klopp brosir út í eitt. vísir/getty

Robin van Persie, fyrrum framherji m.a. Arsenal og Man. United, segir að helsti munurinn á innkaupastefnu Liverpool og Man. United sé sá annað liðið kaupi stjörnur með markaðslegum tilgangi en hitt er með ákveðna hugmyndafræði.

Liverpool er 37 stigum á undan grönnunum í United. Bítlaborgarliðið er á toppnum en Man. United er í 5. sæti deildarinnar. Hinn hollenski van Persie var í viðtali hjá So Foot þar sem hann ræddi meðal annars leikmannakaup félaganna.

„Þegar þú berð þetta saman við Liverpool þá var Klopp ráðinn og hann náði í leikmenn sem hentuðu liðinu en ekki af markaðslegum tilgangi. Þeir byggðu félagið á verkefni stjórans. Hjá United hafa þeir veðjað á stjörnur eins og Paul Pogba og Alexis Sanchez,“ sagði Van Persie.

„Það er hættulegt. Ef svoleiðis leikmaður meiðist eða er ekki klár í að spila þá ertu berskjaldaður. Þegar þú ert með hugmyndafræði eins og Liverpool, en ekki Man. United, þá býrðu til mikinn sameiginlegan styrk. Áskorun Man. United er hvort að Solskjær geti búið til sína hugmyndafræði.“

Ole Gunnar Solskjær hefur verið að reyna byggja upp ákveðna stefnu með því að ná í meðal annars Aaron-Wan Bissaka, Daniel James og Harry Maguire. Nú er United meðal annars orðað við Jadon Sancho, James Maddison og Jack Grealish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×