Yfirvöld í Austurríki hafa ákveðið að sóttkví verði aflétt af þremur af vinsælustu skíðasvæðum landsins á fimmtudag, þremur dögum fyrr en til stóð.
Á meðal svæðanna sem losna undan sóttkvínni er skíðabærinn Ischgl, upphafsstaður kórónuveiruhópsýkinga víðsvegar um Evrópu - þar á meðal á Íslandi.
Svæðisyfirvöld í Týról hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa brugðist seint og illa við kórónuveirufaraldrinum í Ischgl, sem fann sér farveg meðal skíðamanna - sem síðan fóru smitaðir heim.
Byrjað var að slaka á kórónuveiruaðgerðum á landsvísu í Austurríki í síðustu viku - en vegna þess hversu margir greindust enn með veiruna á skíðasvæðunum þremur var ákveðið að framlengja sóttkví þar til 26. apríl. Í gær var hins vegar tilkynnt að faraldurinn væri í rénun og því væri ekkert því til fyrirstöðu að opna svæðin á ný.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilgreindi Ischgl sem sérstakt áhættusvæði vegna kórónuveirunnar í byrjun mars eftir að nokkur fjöldi Íslendinga sem þar höfðu dvalið greindist með veiruna.
Böndin hafa einkum beinst að tilteknum bar á svæðinu - og tiltekinni barflautu, sem gestir létu ganga á milli sín. Yfirvöld í Týról aðhöfðust ekkert fyrst um sinn, þrátt fyrir ákvörðun og viðvaranir Þórólfs.