Midtown-menntaskólinn hefur áður komið við sögu í myndunum um köngulóarmanninn en núna stendur til að leggja meira upp úr sambandi hans við aðra nemendur, á sama tíma og hann berst við glæpi annars staðar.
Menntaskólinn hefur einmitt haft mikið vægi í myndasögunum um Spider-Man.
Blaðið Variety greinir frá því að margir leikarar hafi verið nefndir til sögunnar sem arftakar Andrews Garfield í aðalhlutverkinu, en hann tók á sínum tíma við hlutverkinu af Tobey Maguire. Á meðal þeirra eru Dylan O´Brien úr The Maze Runner og Logan Lerman úr myndunum um Percy Jackson. Stutt er síðan Lerman lék í stríðsmyndinni Fury á móti Brad Pitt.

Vegna hins slaka gengis hefur verið ákveðið að Sony Pictures og Walt Disney muni starfa saman við gerð Spider-Man.
Samningurinn kveður á um að ofurhetjan gæti komið við sögu í væntanlegum Avengers-myndum. Líklegt er að hún komi fyrst við sögu í Captain America: Civil War sem kemur út á næsta ári en hún hefur hingað til aðeins verið hluti af Avengers-teiknimyndasögunum.
Fyrirtækið Marvel er í eigu Walt Disney. Marvel hefur lengi viljað setja köngulóarmanninn í myndirnar sínar en eftir að Sony eignaðist réttinn á Spider-Man árið 1999 hefur fyrirtækið ekki mátt snerta á ofurhetjunni. Því hefur það ekki mátt búa til kvikmyndir byggðar á ævintýrum Péturs Parker, fyrr en núna.