Erlent

Gervifæturnir frá Össuri of góðir?

Óli Tynes skrifar
Oscar Pistorius á gervifótum frá Össuri.
Oscar Pistorius á gervifótum frá Össuri.

Óvíst er hvort fótalausi hlauparinn Oscar Pistorius fær að keppa á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Ástæðan er sú að gervifætur hans frá Össuri eru taldir gefa honum óeðlilegt forskot á aðra hlaupara. Pistorius er tvítugur Suður-Afríkubúi sem fæddist með beinlausa kálfa. Hann var aðeins ellefu mánaða gamall þegar báðir fætur hans voru teknir af fyrir neðan hné.

Pistorius var kannski fótalaus en hann hafði járnvilja. Sem unglingur spilaði hann ruðning, tennis og vatna-póló á gervifótum. Í janúar árið 2004 brotnaði hægra hné hans í ruðningskeppni og læknar ráðlögðu honum að skipta yfir í hlaup.

Sautján ára gamall tók hann þátt í móti fyrir fatlaða í heimabæ sínum Pretóríu eftir að hafa æft hlaup í aðeins tvo mánuði. Hann hljóp 100 metrana á 11,51 sekúndu. Heimsmetið var þá 12.2 sekúndur. Síðan hefur Pistorius sett hvert heimsmetið á fætur öðru. Og nú vill hann hlaupa með ófötluðum á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári.

Við það hafa hinsvegar vaknað ýmsar siðferðilegar spurningar. Eins og hvort hinir fjaðurmögnuðu Cheetah Flex-Foot gervifæturnir frá Össuri gefi honum óeðlilegt forskot á aðra hlaupara. Um það er nú deilt hart í íþróttaheiminum.

Sérfræðingar báðum megin borðsins hafa tínt til kosti og ókosti þess að vera fótalaus hlaupari sem getur nýtt sér hátækni til að ná árangri. Hin siðferðilega spurning er eiginlega hversu langt er hægt að ganga í að nota tæknina áður en það fer að teljast ómennskt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×