Innlent

Ofhlaðnar kerrur valda umferðarslysum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Tvö umferðaróhöpp urðu í dag þar sem ofhlaðnar kerrur toguðu til bíla sem lentu í umferðaróhöppum í kjölfarið.

Í fyrra skiptið missti ökumaður jeppa stjórn á bílnum þegar kerra með miklu timbri orsakaði slynk á bílinn þannig að hann keyrði utan í vegrið á Borgarfjarðarbrú.

Í seinna tilfellinu fór jeppi út af á Biskupstungnabraut af sömu ástæðum.

Þegar kerrur eru vitlaust hlaðnar og bifreið er komin á ferð fer farmurinn að vagga með hreyfingum kerrunnar. Við það skapast sveifla sem getur orðið það mikil að kerran lyftist frá götunni og fer að sveiflast til. Þá er hætta á að ökumenn missi stjórn á ökutækjunum.

Lögreglan leggur áherslu á að fólk noti kerrur sem henti farminum. Timbur eigi til að mynda ekki að skaga langt aftur úr, því þá geti skapast mikil hætta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×