Viðskipti innlent

Ístak keppir við Kínverja um gerð flugvalla á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grafísk mynd af þotu Air Greenland að lenda í Nuuk eftir stækkun flugvallarins.
Grafísk mynd af þotu Air Greenland að lenda í Nuuk eftir stækkun flugvallarins. Grafík/Kalaalit Airports.
Ístak er eitt sex verktakafyrirtækja sem fá að bjóða í gerð þriggja flugvalla á Grænlandi. Meiri athygli hefur þó vakið á alþjóðavettvangi að kínverskt fyrirtæki fær einnig að taka þátt í útboðinu. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Þetta verður stærsta innviðafjárfesting í sögu Grænlands en með henni verður flugsamgöngum landsins í raun umbylt. Flugvöllunum í Ilulissat og Nuuk verður breytt úr litlum innanlandsvöllum í alþjóðaflugvelli fyrir þotuflug og nýr innanlandsflugvöllur verður lagður í Qaqortoq.

Frá flugvellinum í Nuuk, höfuðborg Grænlands.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson
Byrjað verður í Nuuk og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist þar í haust. Vorið 2019 á svo að hefjast handa við stækkun vallarins í Ilulissat. Framkvæmdir í Qaqortoq eiga að hefjast vorið 2020, ef áætlanir grænlenskra stjórnvalda standast. 

Brautirnar í Nuuk og Ilulissat eru aðeins um 900 metra langar, og taka því aðeins við minni flugvélum, en markmiðið er að lengja þær upp í 2.200 metra svo þær geti tekið við farþegaþotum í beinu flugi frá útlöndum. Grafískar myndir frá flugvallafyrirtæki Grænlands, Kalaallit airports, sýna meðal annars þotu frá Icelandair á flugvöllunum fullgerðum.

Grafísk mynd af flugvellinum í Ilulissat eftir stækkun. Grænlendingar gera ráð fyrir flugvélum frá Icelandair og Air Iceland Connect.Grafík/Kalallit Airports.
Ellefu alþjóðleg verktakafyrirtæki sóttu um í forvali en af þeim völdu grænlensk stjórnvöld sex til að bjóða í verkið. Þar á meðal er Ístak í samstarfi við danska félagið Aarsleff en á listanum eru einnig verktakar frá Hollandi, Danmörku, Kína og Kanada. Ístaksmenn hafa mikla reynslu af mannvirkjagerð á Grænlandi, luku nýlega gerð nýrrar gámahafnar í Nuuk og höfðu áður reist virkjanir og skóla. 

Ákvörðun Grænlendinga um að bjóða kínverskum verktaka að vera með hefur hins vegar vakið meiri athygli og er sögð valda stjórnvöldum í Danmörku verulegum áhyggjum, samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar. Vísað er til varnarsamnings Danmerkur og Bandaríkjanna um Thule-herstöðina.

Vitnað er í háttsettan ónefndan danskan embættismann sem segir Dani verða að taka mið af hagsmunum sinna nánustu bandamanna, sem kæri sig ekki um að stórveldi eins og Kína nái fótfestu á Grænlandi. Rifja má upp að dönsk stjórnvöld komu nýlega í veg fyrir að kínverskt fyrirtæki keypti aflagða flotastöð danska hersins á Suður-Grænlandi. 

Hvort sem það verða íslenskir eða kínverskir verktakar, eða aðrir, sem fá flugvallagerðina, þá stefna Grænlendingar að því að allir flugvellirnir þrír verði tilbúnir eftir rúm fjögur ár, haustið 2022.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×