Skoðun

Lifandi samfélag – samtök um nágrannasamvinnu

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir skrifar
Margt hefur breyst í lífsháttum okkar hér á Íslandi eins og almennt á Vesturlöndum hin síðari ár. Þegar ég var að alast upp á sjötta og sjöunda áratugnum var hin svokallaða kjarnafjölskylda grunneining samfélagsins: hjón og börn þeirra. Enn sáust þá leifar stjórfjölskyldunnar, einkum í sveitum þar sem fremur algengt var að gamla fólkið byggi áfram með yngri kynslóðunum. En eftir því sem elliheimilum fjölgaði varð það æ sjaldgæfara.

Nú er þetta breytt. Vissulega er enn mikið um að á heimilum landsins búi hjón saman, ásamt börnum sínum. Það er hins vegar hvorki eins ríkjandi fyrirkomulag og áður var, og sjálf einingin er orðin lausari í reipunum: algengt er að hjónin hafi átt fyrri maka og eigi börn úr þeim samböndum sem ýmist búa fast eða tíma og tíma á heimilinu, og einstæðir foreldrar – aðallega konur – eru miklu fleiri en áður var. Jafnframt verður æ algengara að fólk búi eitt og það gildir ekki síst um eldra fólk.

Ofan á þetta bætast flutningar milli landa. Æ fleiri Íslendingar búa erlendis, ýmist tímabundið eða alfarið. Mín kynslóð getur engan veginn reitt sig á að fullorðin börn hennar búi á Íslandi og það hefur lítið með það að gera hvort samskipti innan fjölskyldunnar eru góð. Fjölskylduböndin eru einfaldlega ekki eins mikilvæg og þau voru og alls konar aðrir þættir ráða vali fólks á búsetu. Og hér sleppi ég, plássins vegna, allri umræðunni um fjölþjóðasamfélagið sem sömuleiðis er nýtt hér á grábrúna landinu okkar.

En eitt er það sem hefur í raun og veru lítið breyst: Maður er manns gaman og fólk hefur þörf fyrir að veita og þiggja, bæði samskipti og ýmiss konar aðstoð. Það kann að virðast sem við höfum um allnokkurt skeið gert ráð fyrir að ýmiss konar opinber þjónusta geti alfarið uppfyllt það sem samheldnar fjölskyldur önnuðust áður, en timburmennirnir eftir velferðarfyllerí eftirstríðsáranna eru gengnir yfir og við getum því horft allsgáð á hve fjarri lagi er að ætla það. Það er sama hvar við berum niður í lífi almennra borgara: smábörnin okkar sem vantar umönnun meðan foreldrar eða sá sem gegnir því hlutverki er úti að vinna, unga fólkið sem berst við að stofna heimili, koma upp börnum, sinna störfum sínum og áhugamálum – svo ekki sé nú talað um hinn risavaxna „vanda“ sem gamalt fólk er orðið í hugum okkar allra, ekki síst eftir að fólk hætti að deyja á skikkanlegum tíma eins og áður var. Alls staðar er sama sagan: Við náum ekki almennilega endum saman – og nú er ég ekki að tala um peninga heldur frekar tíma, samveru, sameiginleg verkefni.... allt þetta sem við getum kallað hversdagslegt mannlíf. Engir leikskólar, hvað þá hjúkrunarheimili, megna að koma í stað mannlegra samskipta og samhjálpar.

Það er út frá hugleiðingum af þessum toga sem ég er – fremur skyndilega – komin á kaf í að stofna samtök sem hafa hlotið nafnið sem fram kom í yfirskriftinni: Lifandi samfélag – samtök um nágrannasamvinnu. Eins og sjá má á síðu sem félagsskapurinn heldur úti á hinni alltumlykjandi Facebook eru ýmsar hugmyndir uppi í þessum hópi. Langflestir félaga minna þar hafa hug á að koma á fót hreinum og klárum sambýlum. Þó ekki kommúnum af því tagi sem tíðkuðust þegar ég var ung þegar hópur fólks bjó saman í einni íbúð eða húsi og deildi þar öllu, heldur er módelið núna fremur að fólk hafi sína íbúð, sem getur þá verið töluvert minni en í hefðbundnum byggingum og deili síðan sameiginlegu húsnæði og hafi jafnframt með sér víðtækt samstarf og samveru. Sambýli af þessu tagi eru vel þekkt í Danmörku og kölluð „bofællesskab“, þau hafa einnig orðið vinsæl í Bandaríkjunum undir heitinu „co-housing“. Á dögunum var í þættinum Menningin á RÚV kynnt svipað fyrirbæri undir heitinu „co-living“ og var þar talað um „deilisamfélagið“, en það er heiti yfir fremur nýja en þó vaxandi tilhneigingu á Vesturlöndum að deila meira með sér efnislegum gæðum en tíðkast hefur. Annað dæmi um þetta eru bílaklúbbarnir, þar sem fólk sem ekki rekur bíl greiðir árgjald og getur síðan haft afnot af bíl eftir þörfum, mun ódýrari en á bílaleigu. Slík starfsemi er meir að segja að stíga sín fyrstu skref hér í einkabílalandinu mikla undir nafninu Zipcar.

Sjálf kom ég þó ekki með inn í þennan hóp af áhuga fyrir sambýlunum, þótt ég sé afar hrifin af slíku framtaki og held að það geti verið gott skref í þá átt að hafa raunverulega fjölbreytt búsetuúrræði – nokkuð sem stjórnmálamenn elska að setja í stefnuskrár en eru einhvern veginn ómegnugir að gera neitt í. En ég bjó dálítið í kommúnum sem ung kona og hef síðan búið í stórri fjölskyldu og er loksins orðin ein í lítilli risíbúð og elska hana og einlífið afar heitt. Það þýðir þó ekki að ég hafni samskiptum við annað fólk og því hreifst ég af hugmynd sem ég kynntist í bók eftir ameríska konu, Beth Baker, „With a little help from our friends“. Þar er, auk þess að lýsa alls konar co-housing aðferðum, sagt frá skipulegri nágrannasamhjálp. Þetta fyrirbæri kallaði Beth NAN = Neighbours Assist Neighbours – svo mér þótti strax gráupplagt að þýða þetta beint og hef síðan ofsótt vinnufélaga, kunningja, fb vini og mína nánustu með draumsýn minni um NAN = Nágrannar Aðstoða Nágranna.

Hér er um að ræða gagnkvæma aðstoð í sjálfboðavinnu, þvert á alla aldurshópa. Allir sem vilja veita – og þiggja – ýmiss konar aðstoð í sínu daglega lífi, jafnvel þótt það sé bara þörf fyrir að rjúfa einveru, geta tekið þátt í NAN. Samhjálpin getur verið með ákaflega margvíslegum hætti, svo sem að hjálpa til við innkaup, ýmiss konar „skutl“, barnapössun í breiðri merkingu, hjálp við tölvuna..... eða bara að hringja og spjalla saman í smá stund.

Þeir sem ég hef verið að segja frá þessarri hugmynd, einkum af eldri kynslóðinni, segja gjarnan sem svo: „Já, þetta er nú afar göfug hugmynd hjá þér, Sigrún Huld, en veistu.... Íslendingar eru ekki svona“. Þá hef ég nú leyft mér að minna fólk á kynslóð foreldra minna og þeirra. Það fólk hjálpaðist að og velti því ekki einu sinni fyrir sér. Karlarnir byggðu húsin saman og konurnar hjálpuðust að með alls konar verk s.s. saumaskap, barnagæslu og fleira. Þetta var á tímum þegar kjarnafjölskyldan var föst í sessi, hlutverk kynjanna skýr og allir vissu að hverju þeir gengu. Það að við gerum hlutina ekki svona í dag er að minni hyggju ekki vegna þess að við séum svona geysimiklir Bjartur í Sumarhúsum sem þjóð. Það er fremur afleiðing af breyttri samfélagsgerð sem við erum kannske núna fyrst að sjá að hefur leitt með sér mikla einangrun margra, aðskilnað kynslóðanna og gífurlegt vinnuálag fram yfir það sem þyrfti ef meiri samhjálp væri manna á meðal. Vandinn við að koma NAN á fót liggur miklu fremur í því hvernig ætti að skipuleggja þessa samhjálp, en sá vandi liggur dálítið úti í framtíðinni því eins og er er NAN bara hugmynd í kollinum á 65 ára kellingu í 105 Reykjavík.

En næsta laugardag – fyrsta laugardag í sumri – ætlum við sem viljum meira deiliþjóðfélag að halda stofnfund fyrir samtökin Lifandi samfélag – samtök um nágrannasamvinnu. Þetta eru regnhlífarsamtök yfir ýmsar hugmyndir eins og lesendur hafa vonandi áttað sig á (þeir sem nenntu að lesa svona langt), sambýli í borg og úti í sveit og skipulega gagnkvæma samhjálp í hverfum, þorpum eða öðrum passlegum byggðareiningum. Við sem að þessu stöndum erum héðan og þaðan úr samfélaginu, á ýmsum aldri og höfum alls konar skoðanir, við erum með öðrum orðum ekki neins konar sértrúarhópur.

Fyrir þá sem vilja vita meira læt ég fylgja með að þessi stofnfundur verður haldinn í Vogaskóla í Reykjavík klukkan ellefu um morguninn, 21. apríl. Ýmsir munu taka til máls, það verður boðið upp á kaffi og kleinur og skemmtilegan félagsskap – og tækifæri til að starfa að góðu málefni.




Skoðun

Sjá meira


×