Innlent

Athygli vakin á pyndingaraðferðum á Austurvelli

Íslandsdeild Amnesty International efnir til uppákomu á Austurvelli Laugardaginn 30. júní til að vekja athygli á þeim pyndingaraðferðum sem eiga sér stað í "stríðinu gegn hryðjuverkum". Uppákoman stendur yfir frá 13-17 og eru það ungir Amnesty-félagar sem standa fyrir henni. Gestir og gangandi geta kynnt sér aðferðirnar sem teljast samkvæmt endurskilgreiningu ýmissa ríkja, yfirheyrsla, að því er kemur fram í tilkynningu.

Arnar Grant einkaþjálfari, Ásgeir Kolbeinsson sjónvarpsmaður og Lóa Fatumata Touray fyrirsæta hafa gengið til liðs við Amnesty-hópinn til að vekja athygli á pyndingum og hlutskipti þolenda. Þau sitja fyrir í sárum á plakötum sem nú prýða strætóskýli víða um bæinn.

Þrátt fyrir að 20 ár séu liðin frá gildistöku Samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri eða vanvirðandi meðferð sýna ársskýrslur Amnesty International að í meirihluta ríkja heims er fólk pyndað eða látið sæta illri meðferð. Ársskýrslan árið 2007 fjallaði um 153 ríki og af þeim höfðu að minnsta kosti 102 beitt pyndingum eða annars konar illri meðferð.

Ein þeirra áskorana sem mannréttindasamtök standa frammi fyrir eru tilraunir sumra ríkja til að grafa undan skilyrðislausu banni gegn pyndingum og annarri illri meðferð. Það er til dæmis gert með þeirri rökfærslu að slík meðferð sé nauðsynlegt vopn í „stríðinu gegn hryðjuverkum".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×