Erlent

Mótmæli í Íran vegna eldsneytisskömmtunar

Jónas Haraldsson skrifar
Almenningur í Íran sést hér fjölmenna á bensínstöð í von um að tryggja sér bensín áður en skömmtunin skall á.
Almenningur í Íran sést hér fjölmenna á bensínstöð í von um að tryggja sér bensín áður en skömmtunin skall á. MYND/AFP
Kveikt var í að minnsta kosti einni bensínstöð í höfuðborg Íran, Tehran, eftir að stjórnvöld tilkynntu um eldsneytisskömmtun í landinu.

Stjórnvöld tilkynntu með aðeins tveggja klukkutíma fyrirvara að ökumenn myndu aðeins mega kaupa 100 lítra af bensíni á einkabíla á mánuði. Ástæðan fyrir þessari óvæntu ákvörðun er talin vera ótti við áhrif refsiaðgerða Sameinuðu þjóðanna. Íran er eitt olíuauðugusta ríkis heims en hefur ekki nógu margar hreinsistöðvar og verður því að flytja inn eldsneyti.

Í höfuðborginni Tehran var mikið um mótmæli og almenningur hrópaði slagorð gegn forseta landsins, Mahmoud Ahamadinejad. Langa biðraðir mynduðust við bensínstöðvar og fregnir bárust af átökum á meðal ökumanna sem voru að reyna að komast að áður en skömmtunin skall á klukkan hálfníu í gærkvöldi að íslenskum tíma.

Eldsneyti í Íran er greitt verulega niður af stjórnvöldum. Bensín þar er selt á aðeins fimmtung af raunverði þess en talið er að skömmtunin eigi eftir að leiða til hækkandi verðbólgu í landinu. Sem stendur kostar líter af bensíni tæpar sjö íslenskar krónur en raunvirðið er nálægt 35 krónum, rúmlega þrisvar sinnum lægra en á Íslandi. Bandaríkin hafa sagt að innflutningur Írana á eldsneyti sé hugsanlegt verkfæri í kjarnorkudeilu þjóðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×