Erlent

Ekki séð aðra eins úrkomu fyrr

Guðjón Helgason skrifar

Íslendingur sem búið hefur í Hull í 20 ár segir ástandið skelfilegt á flóðasvæðunum í Bretlandi. Samgöngur eru enn í lamasessi á Englandi og í Wales eftir flóðin þar í gær og fyrradag. Íbúarnir bíða milli vonar og ótta því spáð er meiri úrkomu á svæðinu um næstu helgi.

Fjórir hafa farist í flóðunum sem voru verst í Jórvíkurskíri, Lincolnskíri og miðhéruðum Englands. Enn er sögð hætta á að stíflur þar bresti á tveimur svæðum. Tryggingafélög meta samalagt tjón upp á jafnvirði minnst þrettán milljarða íslenskra króna.

Kristleifur Loftsson hefur búið í Hull í tuttugu ár. Hann segir ástandið ekki hafa verið sérlega slæmt þar sem hann búi við smábátahöfn í borginni. Hann segir mikið hafa rignt á sunnudaginn og þá hafi sérfróðir menn sagt að slíkt gerðist ekki nema einu sinni á hálfri öld eða svo. En svo hafi vont versnað.

Hann segir hafa rignt sem aldrei fyrr. Úrkoman hafi verið stanslaus í 12 tíma og verið á við það sem rigni á tveimur mánuðum.

Kristleifur segir að áfram sé spáð rigningum og íbúar bíði milli vonar og ótta. Hann segir því spáð að laugardagur og sunnudagur verið blautustu dagarnir en annars voni flestir að ekkert verið úr spánum.

Elísabet önnur Englandsdrotting þakkaði í dag björgunarmönnum og hjálpsömum borgurum skjót viðbrögð í hamförunum. Hún sagðist finna til með þeim sem hefðu misst ástvini í flóðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×