Innlent

Aðsókn að kaffihúsum dregst saman

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Dæmi eru um að sala á börum hafi dregist saman um allt að 70 prósent eftir að reykingarbannið tók gildi síðustu mánaðarmót. Aðstöðuleysi fyrir reykingarfólk utandyra er helsti orsakavaldur. Starfsfólk segir þó allt annað líf að að standa vaktir eftir breytinguna.

Það er ekki bara andrúmsloftið sem hefur breyst á kaffihúsum, börum og veitingastöðum frá því reykingabannið tók gildi 1. júní, heldur hefur aðsóknarmynstur viðskiptavinanna einnig breyst.

Kormákur Geirharðsson veitingamaður á Ölstofunni segir mikla breytingu á virkum dögum. Mun minna sé um að fólk komi og fái sér drykk eftir vinnu og það komi einnig seinna um helgar. Sala í miðri viku hafi dregist saman um tíu til fimmtán prósent.

Heimildir fréttastofu herma að á sumum börum þar sem ekki er seldur matur, og engin aðstaða er utandyra fyrir reykingarfólk, hafi sala dregist saman um allt að 70 prósent.

Guðvarður Gíslason veitingamaður á Apótekinu segir minni aðsókn að kaffihúsi staðarins, en ekki veitingastaðnum. Jákvæðu breytingarnar séu meðal annars þær að fjölskyldur fari frekar með börnin út að borða, áður hafi þær oft snúið við í gættinni þegar þær gengu á reykingarvegg.

Þá segir hann starfsfólkið, og hann sjálfan hæstánægt með breytinguna þar sem það geti nú lagst á koddann þegar það kemur úr vinnu, án þess að fara í sturtu fyrst.

Kormákur varar þó við því að fólk geymi glös inni á veitingastöðum á meðan það fari út að reykja þar sem auðvelt sé að lauma ólyfjan í glösin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×