Innlent

Stolið úr íslenskum verslunum fyrir níu milljónir á dag

Stolið er úr verslunum um land allt fyrir allt að níu milljónir króna á dag, eða um þrjá milljarða á ári, að meðaltali. Öryggisfræðingur segir að starfsmenn verslana steli fyrir um það bil helming þeirrar upphæðar.



Almenningur og starfsmenn verslana stela vörum fyrir um þrjá milljarða króna á á ári samkvæmt tölum frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þessir glæpir gætu staðið undir öllum kostnaði við dómstóla og fangelsi á Íslandi, samkvæmt fjárlögum þessa árs. Eyþór Víðisson öryggisfræðingur hjá fyrirtækinu VSI sem sérhæfir sig í öryggishönnun og ráðgjöf segir fólk stela helst úr matvöruverslunum og raftækja- og tískuverslunum. Þá sýni kannanir bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum að starfsmenn steli grimmt af vinnustöðum sínum.



„40-45% þeirra sem stela eru starfsmenn. Líklega vegna þess að þeir eru í búðinni allan daginn . Þeir þekkja vöruna og aðstæður langbest og hafa góðan aðgang. Þannig að aðstæður þeirra eru oft mjög góðar til að stela. það á einnig við hér á landi ef borið er saman við tölur frá Bretlandi," segir Eyþór. Með aukinni neyslu steli fólk meira og langmest á meðan á innkaupum standi. Hann segir þá sem stela úr verslunum koma úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Um 75% þeirra séu fullorðnir og 25% þeirra börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×