Innlent

Cortes í 11. sæti með óútkomna plötu

Óli Tynes skrifar

Plata Garðars Thórs Cortes er komin í 11. sæti yfir mest seldu klassísku plöturnar á vef HMV búðana sem er stærsta hljómplötuverslunarkeðja Bretlands, og er hún þó ekki komin út. Þarna er eingöngu um fyrirfram pantanir að ræða. Platan nefnist einfaldlega Cortes og á henni eru mörg stórverk tónbókmenntanna.

Garðar syngur meðal annars Nessun Dorma, Nella Fantasia, Grenada og Caruso.

Það er Believer Music undir stjórn Einars Bárðarsonar sem stýrir þessari útgáfu og hefur mikið verið í lagt við kynningu á plötunni.

Viðtöl við Garðar birtast í hverju stórtímaritinu af öðru og gagnrýnendur hrósa honum í hástert. Fleiri en einn hefur líkt honum við Pavarotti.

Í haust ferðaðist Garðar um England með skólasystur sinni Katherine Jenkins, og var forkunarvel tekið. Upptökum á plötu Garðars lauk í haust og hún kemur í verslanir í Bretlandi annan mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×