Skoðun

Virkur ferðamáti til eflingar heilsu á nýju ári

Rut Sigurjónsdóttir skrifar
Á síðastliðnum áratugum hefur bílaeign aukist til muna bæði erlendis sem og hérlendis, slík þróun hefur haft í för með sér ýmsar neikvæðar afleiðingar, sem meðal annars snúa að umhverfi og heilsufari einstaklinga.

Eitt af aðalmarkmiðum Landlæknisembættisins, er að stuðla að heilsueflandi samfélagi, sem felst í að hvetja landsmenn til þess að huga vel að líkamlegri jafnt sem andlegri heilsu, með því að stunda reglubundna hreyfingu sem hægt er samtvinna við daglegt líf. Slíkt er mikilvægur liður í forvörnum gegn hinum fjölmörgu lífstílssjúkdómum á borð við hjarta-og æðasjúkdóma, sykursýki og offitu, sem farið hafa hratt vaxandi á síðastliðnum árum, í hinum vestræna heimi. Til að ná fram þeim markmiðum er nauðsynlegt að einstaklingar kjósi virkan ferðamáta sem oftast, en hann felur í sér hreyfingu á borð við göngu eða hjólreiðar, sem krefst eigin orku til þess að komast á milli staða.

Í könnun sem Gallup gerði haustið 2017 varðandi ferðavenjur meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins, kom fram að einungis 10%, hjóla allt árið um kring. Könnunin leiddi einnig í ljós áhugaverðan mun á milli bæjarfélaga og notkun hjólreiða sem ferðamáta, Reykvíkingar reyndust hvað duglegastir en 12% þeirra nota hjólreiðar sem ferðamáta allan ársins hring. Hins vegar eru einstaklingar sem búa í bæjarfélögunum Garðabæ, Kópavogi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi síður líklegir til þess að nota hjólreiðar sem ferðamáta, en einungis 7% íbúa í þessara bæjarfélaga hjóla allt árið um kring.

Notum nýtt ár til þess að setja heilsuna í forgang og endurskoða það sem auðveldlega væri hægt að breyta til hins bera, hvað hreyfingu varðar. Margt smátt gerir eitt stórt.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×